Fullkomlega vanhugsað frá a til ö

Þessi heilbrigðisstarfsmaður í Stokkhólmi er betur búinn en íslenski læknirinn …
Þessi heilbrigðisstarfsmaður í Stokkhólmi er betur búinn en íslenski læknirinn sem sagði mbl.is frá erfiðum aðstæðum á sjúkrahúsinu sem hann vinnur á í Stokkhólmi. Þar hlúði hann að covid-sýktum einstaklingum án fullkomins hlífðarbúnaðar vegna skorts þar á. AFP

Ef covid-sjúklingur er ekki svo illa haldinn að hann sé í öndunarvél, láta Svíar sums staðar duga að heilbrigðisstarfsfólkið sem hlúir að honum sé ekki í meiri hlífðarfatnaði en stuttu ermaplasti, sem rétt þekur brjóstkassa og mitti en ekki hendur, og með lélegan maska. Með öðrum orðum: Hlífðarbúnaðurinn er oft ófullkominn, enda er skortur á fullkomnum búnaði.

Íslenskur læknir sem starfar við þessi skilyrði á stóru sjúkrahúsi í Stokkhólmi kvartaði sérstaklega undan þessum glæfralega viðbúnaði við yfirmenn sína í upphafi mánaðar, þegar hann sneri aftur í klíníska vinnu eftir störf á öðrum vettvangi. „Ég var mjög óánægður með þetta en þeir sögðu bara að það skorti búnað og að það væri ekki hægt að gera betur en þetta. Maður varð bara að samþykkja það,“ segir hann við mbl.is en getur sökum stöðu sinnar ekki látið nafns síns getið.

Þessi læknir hætti að vinna á þriðjudaginn af því að hann var farinn að sýna klassísk einkenni COVID-19. Hann fór heim, þar sem hann hefur líklega smitað eiginkonu sína, og bæði hafa þau legið í veikindum yfir páska.

Smithætta í allar áttir

Aðstæður á sænskum sjúkrahúsum eru samkvæmt lýsingum læknisins mjög margar til þess fallnar að greiða fyrir smiti, þegar þær ættu auðvitað að gera þveröfugt. Legudeildinni þar sem hann starfar var breytt til hálfs í covid-deild og í sumum tilvikum leiddi það til þess að mjög veikt fólk og covid-sjúklingar lágu hlið við hlið.

„Þetta eykur náttúrlega gríðarlega hættuna á smiti hjá fólki í áhættuhópi og þar spilar líka inn í að hjúkrunarfræðingarnir vinna með báðum hópum og það að covid-deildin sé í rauninni ekki afmörkuð yfirleitt. Það er bara mikill samgangur daginn inn og út á milli deilda, meðal annars á fundum starfsmanna,“ lýsir læknirinn.

Smitleiðirnar eru þannig að hans sögn ekki aðeins greiðar á milli sjúklinga og starfsfólks, eins og vegna ofangreinds búnaðar, heldur einnig innbyrðis á milli starfsfólks. „Það má því segja að þetta sé einfaldlega fullkomlega vanhugsað frá a til ö á öllum punktum,“ segir læknirinn.

Læknar óvissir um eigin heilsu

Ofan á þessar aðstæður bætist að Svíar eru ekki örlátastir þjóða á skimanir. Það er að skilja: Fólk þarf að uppfylla nokkuð ströng skilyrði til þess að fá skorið úr því með sýnatöku hvort það sé smitað, rétt eins og sagt var frá í viðtali mbl.is við konu í Svíþjóð, sem var smituð af veirunni en fékk þó ekki að fara í próf.

Maður hefði haldið að heilbrigðisstarfsfólk hefði þá forgang í sýnatöku, en svo er ekki. „Ég lét yfirmenn vita af einkennum mínum og vildi vita hvort ég færi þá ekki í próf en þá er það ekki hægt,“ segir læknirinn íslenski. Kom í ljós að aðeins er hægt að mæla starfsfólk áður en það er farið að sýna einkenni, en ekki ef þykir sýnt að það sé veikt hvort sem er. Skilyrðin fyrir að fá að fara í sýnatöku voru því að sögn læknisins eiginlega orðin þannig að enginn uppfyllti þau.

Læknirinn skildi þetta þannig að hann væri í rauninni talinn veikur og ætti að fara heim, og ætlaði þá að láta samstarfsfólkið sem hann hafði unnið náið með vita en honum var sagt að gera það ekki. „Mér var sagt að skipta mér bara ekki af þessu, og vera bara heima þar til ég hefði verið laus við einkenni í tvo daga. Þá ætti ég að koma aftur til vinnu,“ segir hann. Reglan er síðan almennt að menn koma aftur til vinnu án þess að vera prófaðir þegar þeir snúa aftur, en sá sem hér er til umræðu fær að fara í próf eftir mikið þref. 

Skýr stefna, en mjög umdeild

Stjórnvöld í Svíþjóð hafa legið undir ámæli úr öllum áttum vegna sérstakra viðbragða sinna við kórónuveirufaraldrinum, eins og af hálfu Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis sem sagði á blaðamannafundi í dag að þar í landi hefði verið brugðist of seint við.

Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svía, er umdeild persóna þessi dægrin en …
Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svía, er umdeild persóna þessi dægrin en markmið Svía er að ná hjarðónæmi á skemmri tíma en aðrar þjóðir. Slík áform hafa sínar skuggahliðar. AFP

Íslenski læknirinn segir ásetning sænsku stjórnarinnar nokkuð ljósan; nefnilega að fá hjarðónæmi og það tiltölulega fljótt. „Það er ekkert leyndarmál hver áformin eru. Það er hins vegar spurning með útfærslu þeirra, sem er að leiða til skorts á nauðsynlegum búnaði eins og sýnatökupinnum. Þeir láta síðan eins og þær skerðingar á sýnatökum séu ígrunduð ákvörðun, en þær koma náttúrlega bara til af þessum skorti,“ segir hann. Það leiði til miður góðs starfsöryggis heilbrigðisstarfsfólks.

Læknirinn telur þó ekkert benda sérstaklega til þess að sjúkrahúsin muni bresta vegna álags. „Fyrir viku var búið að loka öllum sjúkrahúsum nema Karólínska og þá var þetta orðið ansi þröngt en síðan þá hefur þetta orðið stöðugra. Þeir eru búnir að byggja aukasjúkrahús í Stokkhólmi, þar sem þetta er langverst, og það getur tekið á móti covid-sjúklingum,“ segir hann.

„Með því að fara þessa leið ertu þó auðvitað að samþykkja að eldra fólk deyi, enda eru hér ákveðin skilyrði til þess að komast inn á gjörgæslu,“ segir læknirinn. Þau eru byggð á lífslíkum fólks: Eldra fólk eða fólk sem er mjög veikt víkur fyrir hinum yngri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert