„Fyrir glæp sem ég framdi ekki“

Ástralski kardínálinn George Pell veltir fyrir sér þjáningum og illsku heimsins í aðsendri grein sem birtist í áströlsku dagblaði á laugardag. Hann vísar til eigin reynslu af því að hafa setið í fangelsi í 13 mánuði „fyrir glæp sem ég framdi ekki,“ skrifar Pell sem var sýknaður af barnaníði í hæstarétti fyrir páska og látinn laus á þriðjudag. 

Pell var sakfelldur af kviðdómi í lok febrúar í fyrra fyrir kynferðisbrot gegn tveimur kórdrengjum. Kardínálinn var fjármálastjóri Páfagarðs og hæst setti embættismaður kaþólsku kirkjunnar sem hefur verið sakfelldur fyrir barnaníð.

Hurðin á St Patrick's-dómkirkjunni hreinsuð í Melbourne 8. apríl, daginn …
Hurðin á St Patrick's-dómkirkjunni hreinsuð í Melbourne 8. apríl, daginn eftir sýknu Pells. Ekki eru allir sáttir við niðurstöðuna og var ritað níð um kardínálann á kirkjudyrnar. AFP

Pell var sakfelldur fyrir kynferðisofbeldi gegn piltunum í skrúðhúsi dómkirkju í Melbourne á síðasta áratug aldarinnar sem leið þegar þeir voru tólf og þrettán ára. Pell hefur alltaf neitað sök og var eins og áður sagði sýknaður af hæstarétti í Melbourne í síðustu viku. 

Annar kórdrengjanna dó af völdum of stórs skammts af fíkniefnum árið 2014 og fjölskylda hans rekur örlög hans til sálræna áfallsins sem hann varð fyrir vegna árásarinnar. Hitt fórnarlambið sagðist hafa fundið til „skammar, einmanaleika, þunglyndis og innri baráttu“ í mörg ár eftir árásina.

Pell varð kardínáli árið 2003 og Frans páfi skipaði hann fjármálastjóra Páfagarðs 2014. Hann er íhaldssamur í samfélagsmálum, hefur m.a. tekið harða afstöðu gegn hjónaböndum samkynhneigðra og látið í ljós efasemdir um að heiminum stafi hætta af loftslagsbreytingum af mannavöldum.

Barnaleikföng og borðar sett á hliðið á karmelítu-klaustrinu þar sem …
Barnaleikföng og borðar sett á hliðið á karmelítu-klaustrinu þar sem Pell dvelur. Leikföngin og borðarnir eru tákn um samstöðu með börnum sem hafa þurft að þola ofbeldi af hálfu níðinga. AFP

Í grein í Morgunblaðinu í fyrra er haft eftir ástralska blaðamanninum David Marr að Pell hafi einnig beitt sér mjög gegn getnaðarvörnum, hjónaskilnuðum og fóstureyðingum. Hann hafi lagt mikla áherslu á skírlífi presta sem hann hafi lýst sem heilagri skyldu, fórn í þágu Krists og sönnun fyrir ást þeirra á Guði.

Grein Pells var birt í dagblaðinu Australian á laugardag. Þar spyr hann um hvers vegna þetta hafi hent hann. 

Rannsóknarnefnd á vegum ríkisstjórnar Ástralíu komst að þeirri niðurstöðu að um 7% presta kaþólsku kirkjunnar í landinu hefðu verið sökuð um kynferðisbrot gegn börnum á árunum 1950 til 2010 en ásakanirnar voru ekki rannsakaðar. Yfirmenn kirkjunnar fengu ábendingar um 4.444 meint kynferðisbrot presta gegn börnum.

Nefndin yfirheyrði Pell um barnaníð presta í biskupsdæminu Ballarat þar sem hann starfaði á áttunda og níunda áratugnum. Hann sagði þá að hann minntist þess ekki að hafa fengið upplýsingar um barnaníð presta á þessum tíma. 

Í greininni segir Pell grundvallarmun vera á hugmyndum guðhræddra og veraldarhyggjumanna sem sjáist best í hvernig þeir nálgist þjáningar og tekur Pell hlutskipti sitt og fangelsun þar sem dæmi. „Ég hef eytt 13 mánuðum í fangelsi fyrir glæp sem ég framdi ekki. Ein vonbrigðin á eftir öðrum,“ skrifar hann. „Ég vissi að Guð var með mér en ég vissi ekki hvað hann ætlaði sér þrátt fyrir að ég gerði mér grein fyrir því að hann hafi veitt okkur öllum frelsi,“ skrifar Pell. Í þjáningum finnum við frelsun. Hann segir að sýknan hafi frelsað kaþólsku kirkjuna undan siðferðislegum ásökunum sem ekki áttu við rök að styðjast.

George Pell hefur alltaf haldið fram sakleysi sínu.
George Pell hefur alltaf haldið fram sakleysi sínu. AFP

Pell segir að fyrri sakfelling hafi valdið vonbrigðum en hann muni nýta reynsluna af dvölinni í fangelsinu til þess að öðlast andlega orku. Kynferðisleg misnotkun hafi eyðilagt þúsundir fórnarlamba og á mörgum sviðum hafi þetta haft slæm áhrif á kaþólsku kirkjuna.

Eftir að Pell var látinn laus á þriðjudag sagði einn af þeim sem sökuðu hann um kynferðislegt ofbeldi að hann viðurkenndi niðurstöðu hæstaréttar en hvatti um leið þá sem hefðu orðið fyrir barnaníði að stíga fram. „Það er erfitt í barnaníðsmálum að sannfæra sakadóm um að brotið hafi verið framið án nokkurs vafa,“ segir maðurinn sem hefur verið nefndur sem vitni J í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér á miðvikudag. 

Réttlæti fyrir vitni J.
Réttlæti fyrir vitni J. AFP

Pell hefur alltaf haldið fram sakleysi sínu og í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér kom fram að hann væri fórnarlamb alvarlegs óréttlætis. Nokkrum klukkutímum síðar sendi Frans páfi frá sér yfirlýsingu á Twitter, Pell er ekki nefndur á nafn, þar sem hann fordæmir óréttláta dóma gagnvart saklausu fólki. Talar hann þar um að heimurinn upplifi nú á páskaföstunni ofsóknir þær sem Jesús varð fyrir og hvernig hann var dæmdur grimmilega þrátt fyrir að vera saklaus. 

Þrátt fyrir sýknu er ekki víst að hremmingum Pells fyrir dómstólum sé lokið því hann á mögulega yfir höfði sér einkamál, þar á meðal af hálfu föður eins af meintum fórnarlömbum Pell. Hann íhugar nú að höfða skaðabótamál gegn Pell. Sonur hans greindi aldrei frá ofbeldinu sjálfur en lést af ofskömmtun fíkniefna árið 2014. Lögmaður föðurins segir að skjólstæðingur hans sé afar ósáttur við niðurstöðu hæstaréttar og hafi misst trúna á réttarkerfið í Ástralíu. 

Áströlsk samtök sem styðja við þolendur kynferðisofbeldis, Blue Knot Foundation, segja niðurstöðu hæstaréttar áfall fyrir fólk sem hefur þurft að þola misnotkun. Barnaníðingar sem hafa fengið að ganga lausum hala í skjóli kaþólsku kirkjunnar hafa ógnað öryggi milljóna barna um allan heim. 

Eftir að Pell var látinn laus á þriðjudag voru birtar myndir í áströlskum fjölmiðlum þar sem ekið er með Pell í karmelíta klaustur í úthverfi Melbourne. Forsætisráðherra Ástralíu, Scott Morrison, segir að umræðan um þessi mál veki upp mikinn sársauka meðal þolenda og að hugur hans sé alltaf hjá þeim. „En hæstiréttur, sem er æðsti dómstóll landsins, hefur tekið ákvörðun og hana verðum við að virða,“ sagði Morrison þennan sama dag.

Vitni J, sem er nú fimmtugur að aldri, lýsti því fyrir dómi hvernig hann var beittur ofbeldi af hálfu Pell og nunnu á árunum 1974 til 1978 þegar hann bjó á St Joseph's-drengjaheimilinu í Ballarat. Pell hefur ekki bara verið sakaður um barnaníð sjálfur heldur einnig að hafa ekki komið börnum til hjálpar sem lentu í klónum á níðingum sem störfuðu á vegum kaþólsku kirkjunnar.

Pell neitar því alfarið en einn þeirra sem hafa höfðað mál gegn Pell er maður sem er fórnarlamb barnaníðingsins Edward Dowlan. Maðurinn var nemandi við kaþólskan menntaskóla í Austur-Melborune þegar Dowlan beitti hann ofbeldi. Dowlan var fyrst dæmdur í fangelsi fyrir barnaníð á tíunda áratug síðustu aldar og þá var það fyrir barnaníð sem hann framdi á áttunda og níunda áratugnum.

Fram hefur komið við réttarhöldin að Pell hafi vitað af níðingsverkum Dowlan en í stað þess að stöðva hann lét Pell flytja hann ítrekað á milli skóla þannig að hann gat haldið ofbeldinu áfram gagnvart börnum afskiptalaust. Von er á niðurstöðunni í málinu gegn Pell innan örfárra vikna. 

Sky News í Ástralíu mun síðan birta einkaviðtal við Pell á morgun, 14. apríl.

Byggt á umfjöllun Guardian, AFP-fréttastofunnar, BBC, New York Times, CNN, Newsweek, Telegraph, Sky News Australia og The Australian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert