Andrew Cuomo, ríkisstjóri í New York, segir að það versta sé yfirstaðið í ríkinu með tilliti til kórónuveirunnar. Yfir tíu þúsund eru núna látnir af völdum veirunnar í ríkinu.
Cuomo sagði á blaðamannafundi að færri hefðu verið lagðir inn á sjúkrahús en áður og bætti við að hann væri að undirbúa aðgerðir til að koma efnahagslífinu í gang á nýjan leik.
„Ég tel að við getum núna hafið leiðina í átt að venjulegu lífi,“ sagði Cuomo.
Hann greindi frá því að 671 hefði látið lífið síðasta sólarhringinn og þar með hefðu 10.056 látist í ríkinu af völdum veirunnar. Ekki hafa færri látist á einum sólahring þar síðan 5. apríl. Flestir létust á fimmtudaginn í síðustu viku, eða 799.
„Það versta er afstaðið ef við höldum áfram að vera skynsöm,“ sagði ríkisstjórinn.