Hefur safnað milljónum með göngu yfir garðinn sinn

Moore er alveg tilbúinn að ganga 100 ferðir til viðbótar.
Moore er alveg tilbúinn að ganga 100 ferðir til viðbótar. Skjáskot af vef BBC

Hinn 99 ára gamli Tom Moore hefur safnað þremur milljónum punda til styrktar NHS, starfsfólki heilbrigðisstofnana innan breska heilbrigðiskerfisins, í baráttunni gegn kórónuveirunni. BBC greinir frá.

Moore, sem er fyrrverandi hermaður, safnar áheitum með því að ganga 100 ferðir fram og til baka yfir garðinn heima hjá sér í Bedfordshire í Bretlandi, með aðstoð göngugrindar. En garðflötin er um 25 metrar á lengd. Upphaflegt markmið hans var að safna 1.000 pundum og ætlaði hann að ljúka göngunni á fimmtudag.

Þrátt fyrir að vera löngu búinn að ná markmiði sínu þá ætlar hann að halda göngunni áfram og safna meira. Hann vonast jafnvel til að geta gengið aðrar 100 ferðir þegar þeim 100 sem hann lagði upp með verður lokið.

Forsvarsmenn styrktarsjóðsins NHS Charities Together, sem mun njóta góðs af söfnun Moore, segjast vera fullir af innblæstri og auðmýkt yfir framtaki hans. Yfir 98 þúsund einstaklingar víðs vegar um heiminn hafa lagt söfnuninni lið síðan hún var sett á laggirnar í síðustu viku.

Ástæða þess að Moore ákvað að ráðast fjáröflunina var til að þakka hinu magnaða starfsfólki NHS sem var til staðar fyrir hann þegar hann var í krabbameinsmeðferð og einnig þegar hann mjaðmargrindarbrotnaði.

Moore ætlaði varla að trúa því þegar hann komst að því að hann væri kominn upp í eina milljón punda, en hvað þá þegar hann var kominn upp í þrjár. Hann sagði þetta algjörlega ótrúlegt. „Þegar maður hugsar fyrir hverja þetta er, alla hugrökku og frábæru læknana og hjúkrunarfræðingana sem við eigum. Ég held að þau eigi skilið hvern einasta aur og ég vonast til að geta safnað meira handa þeim,“ sagði Moore í samtali við BBC, en hann verður 100 ára í lok mánaðarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert