Finnsk stjórnvöld hafa aflétt einangrun héraðsins Uusima (s. Nyland), sem höfuðborgin Helsinki tilheyrir. Frá þessu greindi Sanna Marin forsætisráðherra á blaðamannafundi í morgun.
Héraðið hefur verið í einangrun frá 28. mars til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar, og hafa ferðir til og frá svæðinu verið bannaðar nema brýna nauðsyn beri til. Á fundinum sagði Marin að ekki væri lengur lagalegur grundvöllur fyrir banninu, sem aðeins má beita sé það óumflýjanlegt. Hún sagði ástandið þó enn alvarlegt og varaði fólk við að ferðast að ástæðulausu. „Nú er ekki tíminn til að fara upp í sumarbústað,“ er haft eftir Marin í frétt finnska ríkisútvarpsins, YLE.
Anna-Maja Henriksson dómsmálaráðherra sagði á fundinum að takmörkunum á stjórnarskrárbundnum réttindum fólks mætti aðeins beita væru þær óumflýjanlegar. Það væri mat stjórnvalda nú að aðrar takmarkanir sem þegar væru gætu takmarkað útbreiðslu veirunnar. Hún hefur nú breiðst út víða um land og er fjöldi nýrra tilfella í mörgum héruðum nú meiri en í Uusima-héraði.
Alls hafa 3.100 tilfelli kórónuveirunnar greinst í Finnlandi og hafa 64 látist.