Tom Morre er 99 ára gamall og barðist í seinni heimsstyrjöldinni. Hann hefur klætt sig í gamla hermannabúninginn að nýju og safnað yfir 12 milljónum punda, sem svarar til 2,2 milljarða króna, fyrir heilbrigðisstarfsmenn í framvarðasveitinni í Bretlandi með því ganga hringi um garðinn sinn.
Tom Moore, sem var höfuðsmaður í breska hernum á Indlandi, stefnir að því að ganga 100 hringi í garðinum fyrir 100 ára afmælið í lok mánaðar og stefnir í að það takist strax á morgun. Hver hringur er 25 metrar að lengd.
Hann ætlaði fyrst að safna eitt þúsund pundum fyrir breska heilbrigðiskerfið (National Health Service) eftir að hafa fengið meðferð við mjaðmarbroti og krabbameini. En gangan hefur heldur betur skilað meiru eða rúmlega 12 milljónum punda.
„Þetta er stórkostlegt fyrir læknana okkar og hjúkrunarfræðingana sem eru í framvarðasveitinni,“ segir hann en féð á að renna til heilbrigðisstarfsmanna sem starfa í framvarðasveitinni í baráttunni við kórónuveiruna.
„Í síðasta stríði voru það hermenn í búningum sem voru í fremstu víglínu. Nú er herinn okkar læknar og hjúkrunarfræðingar í búningum,“ segir Moore í viðtali við þáttastjórnendur Good Morning Britain á ITV sjónvarpsstöðinni. „Við munum komast í gegnum þetta.“
Yfir 613 þúsund mans hafa heitið á göngugarpinn og um tíma var svo mikið álag á áheitasíðuna JustGiving að hún lagðist á hliðina.
Í færslu á Twitter-síðu Moore's í gærkvöldi segir: „Þetta hefur verið bilaður sólarhringur og þar sem Tom mun ganga síðasta hringinn á morgun eigum við von á að morgundagurinn verði einnig bilaður.“
Síðustu tíu hringirnir verða sýndir beint á tveimur vinsælustu morgunþáttunum í bresku sjónvarpi.
Meðal þeirra sem hafa styrkt gönguna eru fyrrverandi fyrirliðar Manchester United og Arsenal, Rio Ferdinand og Tony Adams. Sjónvarpsstöðvar og dagblöð auk fjölmargra einstaklinga og góðgerðarsamtaka.
Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.