Strandgæsla Bangladess bjargaði 382 rohingjum sem höfðu verið á reki í tæpa tvo mánuði. Flóttafólkið var að svelta í hel þegar því var bjargað en að sögn yfirvalda í Bangladess höfðu ekki allir lifað flóttann af því rúmlega tveir tugir voru látnir. Fólkið var að reyna að komast til Malasíu en hafði verið vísað þaðan vegna kórónuveirunnar.
Í frétt BBC kemur fram að ekki sé vitað hvort flóttafólkið var að koma frá Bangladess eða Búrma þaðan sem rohingjarnir eru. Árið 2017 drap herinn í Búrma þúsundir rohingja en þeir eru minnihlutahópur múslima í Búrma. Þetta varð til þess að um 700 þúsund rohingjar flúðu yfir til nágrannalandsins, Bangladess.