Hyggst opna Bandaríkin í þremur skrefum

Donald Trump Bandaríkjaforseti kemur til með að kynna afléttingarnar á …
Donald Trump Bandaríkjaforseti kemur til með að kynna afléttingarnar á blaðamannafundi síðar í dag. AFP

Samkvæmt minnisblaði sem afhent hefur verið ríkisstjórum Bandaríkjanna verður aðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins aflétt í þremur skrefum. Skref þessi verða tekin eftir því hve vel gengur að ráða niðurlögum faraldursins í Bandaríkjunum og eru ótímasett.

Frá þessu er greint í fjölmiðlum vestanhafs, en Donald Trump Bandaríkjaforseti kemur til með að kynna afléttingarnar á blaðamannafundi síðar í dag.

Minnisblaðið gefur til kynna að Trump ætli að fara sér öllu hægar í að opna landið að nýju en hann hefur gefið í skyn, en hann hefur hingað til lagt mikla áherslu á að landið verði opnað hratt og örugglega til að tryggja snúning hjóla atvinnulífsins.

Fyrsta staðfesta kórónuveirutilfellið kom upp í Bandaríkjunum 21. janúar og tíu dögum síðar hafði landamærunum verið lokað fyrir ferðamönnum sem höfðu verið í Kína 14 daga á undan.

Seint í febrúar bað Trump bandaríska þingið um 1,25 milljarða Bandaríkjadala til að bregðast við faraldrinum og skömmu síðar varð fyrsta dauðsfallið af völdum veirunnar tilkynnt. Trump lýsti yfir neyðarástandi 13. mars. Síðan þá hafa yfir 650.000 tilfelli kórónuveirunnar verið staðfest og yfir 32 þúsund hafa látist af völdum COVID-19.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert