20 bílstjórar látnir í London

AFP

Stjórnendur almenningssamgangna í London tilkynntu í dag að gripið yrði til aðgerða til að vernda strætisvagnabílstjóra við smiti en 20 bílstjórar hafa látist af völdum COVID-19 í borginni. Vinnufélagar minntust þeirra með mínútu þögn í dag.

Borgarstjórinn í London, Sadiq Khan, minntist bílstjóranna og fyrirskipaði að fremri dyr strætisvagna verði lokaða hér eftir fyrir farþegum og þeim gert að ganga inn að aftan.

AFP

Khan, sem er sonur strætisvagnabílstjóra, segir að það sé þyngra en tárum taki að 20 strætisvagnabílstjórar í London hafi látist af völdum kórónuveirunnar. Þetta hefði auðveldlega getað verið faðir minn og vinir hans,“ skrifar Khan á Twitter.

„Starfsmenn almenningssamgangna eru hetjur og við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að verja þá.“

Hann tók þátt í minningarstund um bílstjórana sem verkalýðsfélag þeirra, Unite, skipulagði. Félagið hefur þrýst á að aðbúnaður og varnir verði settar upp til þess að verja 20 þúsund strætisvagnabílstjóra borgarinnar og aðra starfsmenn almenningssamgangna. 

AFP

Hvergi í Bretlandi hefur kórónuveiran herjað jafn alvarlega og í London en í Bretlandi eru tæplega 14 þúsund látnir. Frá því landinu var nánast lokað í síðasta mánuði hefur farþegum í London fækkað um 85%. Dregið hefur úr framboði ferða en bæði strætisvagnar og lestir ganga til þess að koma framlínufólki til vinnu. Fjórir starfsmenn neðanjarðarlestarkerfisins hafa þegar látist af völdum COVID-19.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert