Ákvörðunin í höndum ríkisstjóra

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, á daglegum blaðamannafundi í Hvíta húsinu …
Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, á daglegum blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gærkvöldi. AFP

Tæplega 33 þúsund Bandaríkjamenn hafa látist af völdum kórónuveirunnar en tæplega 4.500 dauðsföll voru skráð síðasta sólarhringinn og hafa aldrei verið jafn mörg á einum sólarhring, samkvæmt tölum Johns Hopkins-háskólans.

Í frétt AFP-fréttastofunnar kemur fram að þetta séu tölur frá því klukkan 20:30 að bandarískum tíma í gær eða klukkan 00:30 að íslenskum tíma í nótt. Um sé að ræða 4.491 dauðsfall síðasta sólarhringinn. Væntanlega séu inni í þessari tölu möguleg dauðsföll af völdum COVID-19 sem hafa ekki verið upplýst um hingað til.

AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að hann muni setja það í hendur ríkisstjóranna hvernig staðið verði að afléttingu bannsins. Síðustu fjórar vikur hafa 22 milljónir Bandaríkjamanna skráð sig atvinnulausa. 

Að sögn Trump geta ríkin heimilað fyrirtækjum, veitingastöðum og öðrum stofnunum sem eru hluti af daglegu lífi að hefja starfsemi 1. maí eða fyrr ef ríkisstjórarnir vilja. Hefur hann því dregið í land með að það sé hann einn sem ráði för þegar kemur að afléttingu samkomubanns.

Trump hefur aftur á móti lagt fram viðmiðunarreglur sem ekki eru skuldbindandi þar sem lagt er til að varlega verði farið í sakirnar þegar kemur að skólastarfi og atvinnulífi. Byggja eigi á stöðu í hverju ríki fyrir sig í stað þess að ein tilskipun frá Washington gildi fyrir alla líkt og margir ríkisstjórar hafa óttast undanfarna daga, að því er segir í frétt New York Times. 

AFP

„Við opnum ekki allt á sama tíma heldur stígum við varlega til jarðar og tökum eitt skref í einu,“ sagði Trump á fundi með blaðamönnum í Hvíta húsinu í gærkvöldi.

Jay Inslee, ríkisstjóri í Washington, fagnar viðmiðunarreglum þeim sem Trump kynnti þar sem þær brjóti ekki gegn rétti ríkjanna. „Forsetinn gerir sér loks grein fyrir því að réttmætur ákvörðunarréttur er hjá ríkjunum og skrifstofum ríkisstjóra, bæði repúblikana og demókrata,“ segir Inslee. 

Hvergi í heiminum hafa jafn margir látist úr kórónuveirunni og í Bandaríkjunum. Borgaryfirvöld í New York greindu frá því fyrr í vikunni að þau myndu bæta 3.778 dauðsföllum við tölur yfir þá sem hafa látist í kórónuveirufaraldrinum en ekki liggi endanlega fyrir hvort fólkið hafi dáið úr veirunni. Í New York-ríki eru dauðsföllin komin yfir 12 þúsund.

AFP

Á Ítalíu hafa 22.170 látist úr COVID-19 en íbúafjöldi Ítalíu er aðeins 20% af íbúafjölda Bandaríkjanna. Alls hafa greinst tæplega 670 þúsund manns með veiruna í Bandaríkjunum. 

Tæplega tveir af hverjum þremur sem tóku þátt í skoðanakönnun Pew Research Center telja að Trump hafi gripið of seint til aðgerða gegn kórónuveirunni. 65% aðspurða telja að Trump hafi brugðist hægt við þegar tilkynnt var um fyrstu COVID-19-smitin í öðrum ríkjum. Hann hafi talað veiruna niður og sé of æstur í að draga úr hömlum sem hafa haft gríðarleg áhrif á stærsta hagkerfi heims. 


 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert