„Myndum aldrei leyfa yfirhylmingu“

AFP

Kínversk stjórnvöld segja að það hafi aldrei verið um yfirhylmingu að ræða og að þau myndu aldrei hafa heimilað slíkt þegar kemur að fjölda látinna af völdum kórónuveirunnar. Nýjar tölur frá Wuhan hafa gefið samsæriskenningum byr undir báða vængi. 

Eins og greint var frá hér á mbl.is í morgun voru birtar sláandi tölur frá Wuhan um að dauðsföll af völdum kórónuveirunnar hefðu verið 50% fleiri en áður var talið. Að 3.869 hefðu látist af völdum veirunnar í stað 2.579.

AFP

Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, Zhao Lijian, segir samkvæmt frétt AFP-fréttastofunnar að alls ekki hafi verið um feluleik að ræða heldur hafi farsóttin breiðst það hratt út að erfitt hafi verið að halda utan um tölur yfir látna á þeim tímapunkti. 

Fyrr í vikunni sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti að honum fyndist dánartölur í Kína óeðlilega lágar og í viðtali í dag sagði Emmanuel Macron Frakklandsforseti að það væri ljóst að atburðir hefðu átt sér stað sem við vissum ekki um.

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron.
Forseti Frakklands, Emmanuel Macron. AFP

Í viðtali við Financial Times segir Macron að það væri barnalegt að halda því fram að Kínverjar hefðu tekist betur á við veiruna en aðrir. Fleiri hafa einnig haft efasemdir um dánartölur frá Kína, en miklu færri hafa látist þar en í Bandaríkjunum og nokkrum ríkjum Evrópu þrátt fyrir að íbúar Kína séu margfalt fleiri en í þessum ríkjum. Aftur á móti hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) lofað aðgerðir Kínverja. 

Í Frakklandi hafa 141 þúsund einstaklingar greinst með COVID-19 og tæplega 18 þúsund hafa látist. Í Kína hafa 4.632 látist og inni í þeirri tölu eru þeir sem bætt var við í dag, alls 1.290 manns.

Um síðustu helgi kom til deilna milli Frakka og Kínverja og var sendiherra Kína í París kallaður á fund utanríkisráðherra Frakklands vegna greinar sem birtist á vef sendiráðsins. Þar var því haldið fram að vestræn ríki hefðu skilið aldraða eftir á dvalarheimilum þar sem ekkert hefði beðið þeirra annað en dauðinn.

Greinin er rituð af ónafngreindum diplómata og litu Frakkar á hana sem árás á stöðu mála á frönskum dvalarheimilum, en stór hluti þeirra sem hafa látist af völdum veirunnar þar í landi er íbúar á slíkum heimilum. 

Borgaryfirvöld í Wuhan eru ekki þau einu sem hafa birt uppfærslu á dánartölum því það hafa ríki eins og Bandaríkin gert, sem og Spánverjar, Bretar og Frakkar. Aftur á móti berast tölurnar mjög seint frá Wuhan því þar var faraldurinn í algleymi í janúar og febrúar. Um er að ræða fólk sem lést annars staðar en á sjúkrahúsum, segja yfirvöld í Wuhan. 

AFP

Kínverska utanríkisráðuneytið segir að tölurnar komi í kjölfar sannprófunar á tölfræði yfir dauðsföll af völdum COVID-19 og að slík sannprófun hafi verið gerð til að tryggja að fyllstu nákvæmni sé gætt. Tölur séu yfir sjúklinga sem létust áður en þeir komust á sjúkrahús og eins upplýsingar um látna sem hafi borist seint og illa. Hvert dauðsfall af völdum farsóttarinnar sé ekki bara sorglegt fyrir fjölskyldur þess látna heldur einnig fyrir borgina sjálfa, segir í tilkynningu frá sóttvarnalækni Wuhan-borgar, sem sendir samúðarkveðjur til fjölskyldna þeirra sem því miður urðu að lúta í lægra haldi í baráttunni við kórónuveiruna. 

Guardian

BBC

Financial Times

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert