Segir að þúsundir muni deyja

Vor í Stokkhólmi en þar eru kaffihús mörg hver opin.
Vor í Stokkhólmi en þar eru kaffihús mörg hver opin. AFP

Sænska ríkisstjórnin ætlar að auka sýnatöku verulega í landinu og er talað um að taka 50-100 þúsund sýni á viku. Um 75 þúsund einstaklingar hafa nú þegar farið í sýnatöku. Í gær höfðu 12.540 smit verið staðfest í Svíþjóð og 1.333 eru látnir. 

Það eru fáir sem mæta í þingsal í Svíþjóð.
Það eru fáir sem mæta í þingsal í Svíþjóð. AFP

Engar breytingar eru fyrirhugaðar á aðgerðum sænskra yfirvalda til þess að draga úr líkum á smiti en mun minni hömlur eru þar í landi heldur en víðast hvar annars staðar í Evrópu. Samkomubannið gildir um 50 manns og eins eru heimsóknir á hjúkrunarheimili bannaðar. 

Arlanda-flugvöllur í Stokkhólmi.
Arlanda-flugvöllur í Stokkhólmi. AFP

Sýnatöku verður helst beint að fólki sem starfar á heilbrigðissviði, lögreglu, slökkviliði og sjúklingum sem eru með undirliggjandi sjúkdóma. Þetta eru hópar sem eru þegar í forgangshópi en með því að leggja meiri áherslu á þessa hópa vonast stjórnvöld til þess að fólk geti snúið fyrr til starfa eftir að hafa fengið einkenni. 

Frá Helsingborg.
Frá Helsingborg. AFP

Embætti landlæknis skoðar nú hvernig hægt verði að fjölga starfsfólki í sýnatöku og eins hvort einkafyrirtæki komi að greiningu og sýnataka fari einnig fram á heimilum. 

Ástandið er alvarlegt

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, varaði við því að þúsundir muni deyja af völdum veirunnar í Svíþjóð. Ástandið sé alvarlegt og margir sýkist á hverjum degi. „Við verðum að gera ráð fyrir að þúsundir deyi og það gerum við núna. Á bak við tölurnar eru manneskjur. Áminning til allra sem eru heilbrigðir - sýnið ábyrgð,“  sagði Löfven á blaðamannafundi í morgun og hvatti fólk til þess að fylgja leiðbeiningum, svo sem að halda vissri fjarlægð og halda sig heima ef fólk verður vart við einkenni. 

Sænska þinghúsið.
Sænska þinghúsið. AFP

Gríðarlegt álag sé á starfsfólki á gjörgæsludeildum og heilbrigðisstarfsmenn í Svíþjóð séu að sýna ótrúlega færni. Meðal annars með því að tvöfalda fjölda rúma á gjörgæsludeildum á aðeins nokkrum vikum. „Mig langar að færa ykkur hlýjar kveðjur og þakkir. Peningar verða ekki vandamál, ríkið um greiða kostnaðinn hver sem reikningurinn verður að lokum,“ bætti hann við. 

Löfven talaði sérstaklega um stöðu aldraðra og segir hana alvarlega. Mikil áhersla verði að vera á að verja fólk sem er á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

Frá Stokkhólmi í gær.
Frá Stokkhólmi í gær. AFP

Röng gagnrýni í garð Svía

Utanríkisráðherra Svíþjóðar, Ann Linde, segir að það sé einfaldlega rangt að tala um að ástandið sé eðlilegt í Svíþjóð líkt og haldið hafi verið fram í erlendum fjölmiðlum sem vísa í sænska vísindamenn sér til stuðnings.

Hún segir Svía búa við sömu áskoranir og önnur ríki, bæði hvað varðar útbreiðslu farsóttarinnar og álag á heilbrigðiskerfið og að Svíar noti sömu verkfæri og aðrir í þessari baráttu — að hvetja til fjarlægðar milli fólks, verja fólk í áhættuhópum, sýnatöku og styrkingu heilbrigðiskerfisins — í þeirri von að ná stjórn á faraldrinum.

Lena Hallengren heilbrigðisráðherra og Stefan Löfven forsætisráðherra ásamt varaforsætisráðherra Svíþjóðar, …
Lena Hallengren heilbrigðisráðherra og Stefan Löfven forsætisráðherra ásamt varaforsætisráðherra Svíþjóðar, Isabella Lövin. AFP

„Margir dvelja heima og eru hættir að ferðast. Mörg fyrirtæki eru á leið í þrot. Atvinnuleysi mun væntanlega aukast ískyggilega. Það hafa verið sett mörg ný lög og reglugerðir sem hafa áhrif á allt samfélagið. Það er ekki búið að skella í lás í Svíþjóð en margir hlutar sænsks samfélags hafa lokast. Áhrifin eru gríðarlega mikil á marga Svía,“ segir Linde.

Svipuð leið og sú íslenska

Lena Hallengren, heilbrigðisráðherra Svíþjóðar, tekur í svipaðan streng. Hún segir að það sé einkum tvennt sem skilji Svíþjóð að frá flestum öðrum ríkjum Evrópu. Svíar hafi ekki lokað skólum fyrir börn yngri en 16 ára og fólk hafi ekki verið þvingað til þess að halda sig heima heldur hafi lögum og tilmælum verið beitt til þess að ná svipuðu fram. Bæði eru atriði sem svipar til þeirra reglna sem íslensk stjórnvöld hafa gripið til. 

SVT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert