Sláandi dánartölur frá Wuhan

Yfirvöld í kínversku borginni Wuhan birtu í dag tölur um að 50% fleiri hafi látist af völdum kórónuveirunnar í borginni en áður hefur verið haldið fram. COVID-19 veiran greindist fyrst í Wuhan í desember og hefur síðan dregið 146 þúsund manns til dauða. Tæplega 2,2 milljónir jarðarbúa hafa greinst smitaðir af kórónuveirunni frá því í desember.

Borgaryfirvöld halda því nú fram að um mistök hafi verið að ræða í upplýsingagjöf þar sem dauðsföllin hafi annaðhvort verið ranglega skráð eða einfaldlega ekki skráð. Alls er um 1.290 dauðsföll að ræða sem þýðir að sú tala sem gefin er upp núna í Wuhan er að 3.869 hafi látist af völdum veirunnar í Wuhan, segir í frétt AFP-fréttastofunnar.

Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, Zhao Lijian, segir samkvæmt frétt AFP-fréttastofunnar að alls ekki hafi verið um feluleik að ræða heldur hafi farsóttin breiðst það hratt út að erfitt hafi verið að halda utan um tölur yfir látna á þeim tímapunkti. 

Kínverska utanríkisráðuneytið segir að tölurnar komi í kjölfar sannprófunar á tölfræði yfir dauðsföll af völdum COVID-19 og að slík sannprófun hafi verið gerð til að tryggja að fyllstu nákvæmni sé gætt. Tölur séu yfir sjúklinga sem létust áður en þeir komust á sjúkrahús og eins upplýsingar um látna sem hafi borist seint og illa. 

Frétt Guardian

Þessi mistök koma í ljós á sama tíma og efasemdir um gagnsæi kínverskra yfirvalda um upptök veirunnar og fleira henni tengt aukast dag frá degi í heiminum.

Í færslu borgaryfirvalda á samfélagsmiðlum í dag er greint frá þessari fjölgun dauðsfalla en flestir þeirra sem bæði veiktust og létust af völdum kórónuveirunnar í janúar og febrúar voru í Wuhan og nágrenni. Þetta þýðir að dauðsföllum í Kína fjölgaði um 39% og er heildartala látinna nú 4.632 samkvæmt opinberum tölum í Kína.

Kínversk yfirvöld hafa sætt harðri gagnrýni að undanförnu frá vestrænum ríkjum, ekki síst Bandaríkjunum, varðandi upplýsingagjöf varðandi áhrif kórónuveirunnar á landið. Nú er talað um að rannsaka hvort veiran eigi hreinlega upptök sín á kínverskri rannsóknarstofu, ekki á matvælamarkaði í Wuhan líkt og hingað til hefur komið fram. Á matarmarkaðnum eru meðal annars seld villt dýr til manneldis.

Frétt BBC

Frétt CNN

Ein af þeim skýringum sem yfirvöld í Wuhan gefa nú á því hvers vegna upplýsingar um fjölda látinna hafi ekki verið réttar er sú að álagið hafi verið mikið á heilbrigðisstarfsmenn í borginni og því hafi dauðsföll verið skráð seint og illa. Jafnframt að einhverjir sjúklingar hafi látist á heimilum sínum og þau dauðsföll hafi ekki verið rétt skráð.

Íbúar Wuhan, 11 milljónir talsins, bjuggu við útgöngubann í 11 vikur vegna veirunnar og er aðeins stutt síðan þeir fengu heimild til þess að yfirgefa heimili sín, segir í frétt BBC.

í fyrsta skipti í áratug er um samdrátt að ræða í kínversku efnahagslífi en verg landsframleiðsla dróst saman um 6,8% í Kína á fyrsta ársfjórðungi samanborið við sama tíma í fyrra. Stjórnvöld í Kína hafa þurft, líkt og flest ríki heims, að grípa til harðra aðgerða vegna COVID-19. Aðgerðir sem hafa nánast lamað hagkerfi heimsins. 

Þetta er í fyrsta skipti sem ekki mælist hagvöxtur í þessu næststærsta hagkerfi heims frá því yfirvöld í Peking hófu að birta opinberlega hagtölur snemma á tíunda áratug síðustu aldar. Á fjórða ársfjórðungi í fyrra nam hagvöxturinn 6%. 

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir því að hagvöxtur í Kína muni nema 1,2% ár en 9,2% á næsta ári. Sjóðurinn hefur birt afar svartsýna hagvaxtarspá yfir heiminn í ár og spáir AGS því nú að samdrátturinn verði sá mesti frá því í kreppunni miklu undir lok þriðja áratugar síðustu aldar. 

Bætt við klukkan 14:20 - til þess að taka af allan vafa þá hafa ekki verið lagðar fram neinar sannanir sem hrekja það að veiran eigi upptök sín á matarmarkaðnum í Wuhan.

Guardian

CNN

BBC

Staðreyndavakt AFP

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert