Læknir ákærður fyrir að selja „100%“ lækningu við COVID-19

Dr. Jennings Ryan Staley á yfir höfði sér allt að …
Dr. Jennings Ryan Staley á yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsi verði hann fundinn sekur. Ljósmynd/Twitter

Jennings Ryan Staley, rúmlega fertugur læknir frá Kaliforníuríki í Bandaríkjunum, hefur verið ákærður fyrir fjársvik fyrir að hafa selt malaríulyf og sýklalyf sem meðferð við COVID-19-sjúkdómnum. Fullyrti hann að meðferðin virkaði í 100% tilvika.

New York Times greinir frá.

Staley útbjó sérstakan „COVID-19-meðferðarpakka“ sem innihélt meðal annars malaríulyfið Hydroxychloroquine og sýklalyfið Azithromycin (öðru nafni Zithromax). Pakkinn var svo markaðssettur sem fjölskyldupakki fyrir fjóra sem kostaði 3,995 bandaríkjadali, sem jafngildir um 575 þúsund íslenskum krónum.

Sama meðferð og notuð er á Íslandi og víðar

Lyfin hafa verið notuð gegn COVID-19-sjúkdómnum hér á landi og tilgátur eru um að meðferðin dragi úr lífvænleika kórónuveirunnnar í lungnafrumum sem og ónæmissvari gegn veirunni. Ekki er þó að fullu vitað hvernig lyfin virka á veiruna.

Pakkanum fylgdi einnig aðgangur að þjónustu Staleys sem og „meðferð gegn kvíða og til að auðvelda svefn“, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá saksóknurum. Staley er starfandi læknir og eigandi fyrirtækisins Skinny Beach Med Spa, sem veitir fegrunartengda læknisþjónustu eins og bótóxmeðferð og háreyðingu.

Sex vikna ónæmi frá inntöku lyfjanna

Bandaríska alríkislögreglan FBI hóf rannsókn á svikunum eftir að henni barst ábending um starfsemi Staleys. Við tók rannsókn á málinu sem fól það meðal annars í sér að fulltrúi FBI hringdi í Staley og þóttist vera áhugasamur kaupandi. Í samtalinu sagði læknirinn að meðferðin „læknaði sjúkdóminn“.

„Áhrifin eru fyrirbyggjandi og læknandi. Þetta er nánast of gott til að vera satt en þetta er ótrúlegt læknisfræðilegt fyrirbæri,“ sagði hann einnig og fullyrti að meðferðin gerði fólk ónæmt fyrir veirunni í að minnsta kosti sex vikur eftir inntöku lyfjanna.

„Við munum ekki líða svikahrappa sem nýta sér faraldurinn til að hagnast með því að svíkja, stela eða skaða aðra,“ sagði Robert S. Brewer, saksóknari í Kaliforníu, í yfirlýsingu.

Fylgdi fordæmi forsetans

Lögmaður Staleys segir skjólstæðing sinn þó aðeins hafa verið að reyna hjálpa fólki. Hann hafi farið eftir því sem stjórnvöld hafa sagt um lyfið en nú væru stjórnvöld  að sækja hann til saka fyrir að gera það nákvæmlega sama og þau hafa gert í margar vikur. 

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að búa til falskar vonir með því tala lyfið Hydroxichloroquine of mikið upp miðað við tilefni. Forseti Brasilíu, Jair Bol­son­aro, hefur einnig legið undir ámæli fyrir að hafa sagt lyfið virka fullkomlega gegn sjúkdómnum.

Meðferðarpakkinn hafi verið seldur á sanngjörnu markaðsverði og Staley hafi til að mynda boðið FBI-fulltrúanum tvær fríar prufur, sem væri andstæðan við það að svíkja fé úr fólki. Staley á yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsi verði hann fundinn sekur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert