Læknar í Japan vara við hruni heilbrigðiskerfis

Heilbrigðisstarfsmenn í Japan hafa haft í nógu að snúast síðastliðnar …
Heilbrigðisstarfsmenn í Japan hafa haft í nógu að snúast síðastliðnar vikur. AFP

Læknar í Japan hafa varað við að heilbrigðiskerfi landsins geti hrunið á sama tíma og bylgja nýrra kórónuveirutilfella ríður yfir landið. Ekki hefur verið hægt að veita öllum, sem á þurfa að halda, nauðsynlega aðhlynningu á gjörgæslu vegna álags á heilbrigðiskerfið sem fylgt hefur faraldrinum, að því er BBC greinir frá.

Segir þar að sjúkrabíll með kórónuveirusjúkling hafi þurft að keyra á milli 80 spítala áður en spítali fannst sem gat tekið á móti honum. Þrátt fyrir það eru staðfest tilfelli í landinu tiltölulega fá miðað við höfðatölu eða um 10 þúsund, sem kann að vera til marks um sýnatöku þar í landi.

Útlit var fyrir í fyrstu að Japönum hefði tekist að ná tökum á veirunni, en nýgreindum tilfellum hefur fjölgað á ný síðustu daga. Yfir 200 andlát eru staðfest af völdum veirunnar í Japan, og hefur höfuðborgin Tókýó orðið verst úti. 

Læknar hafa kvartað yfir skorti á hlífðarbúnaði sem bendir til að Japanir hafi ekki verið nægilega undirbúnir fyrir veiruna, þrátt fyrir að vera annað ríkið utan Kína til að staðfesta smit, strax í janúar.

Þá hefur Shinzo Abe forsætisráðherra verið gagnrýndur fyrir að grípa ekki til umfangsmeiri aðgerða fyrr til að takmarka smithættu, af ótta við afleiðingarnar sem það hefði á efnahagslífið. Áttu ráðherrar í ríkisstjórn hans í deilum við borgarstjóra Tókýó, sem vildi hertar reglur. Loks á fimmtudag lýsti Abe yfir neyðarástandi í öllu ríkinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert