Þjóðverjum í þremur sambandslöndum verður frá og með 27. apríl skylt að bera hlífðargrímu utandyra. Misjafnt er eftir löndum í hvaða aðstæðum þetta er skylt en í Bæjaralandi, því næststærsta, gildir þetta í öllum verslunum og í almenningsamgöngum.
Í Saxlandi og Mecklenburg-Vorpommern gildir þetta aðeins um almenningssamgöngur. Skyldan kveður á um einhverja vörn yfirleitt og hvers kyns andlitshula uppfyllir því skilyrðin, þó að mælt sé með almennilegum grímum.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur sjálfur ítrekað lýst yfir efasemdum um virkni hlífðargríma, eins og Þjóðverjar gera nú að skyldu. Hann telur þær veita falskt öryggi og segir ekki sýnt að þær komi verulega í veg fyrir smit. Hjá Þjóðverjum er þessu ætlað hvort tveggja; að verja þá sem grímurnar bera en einnig að koma í veg fyrir að þeir smiti frá sér.
Um allt Þýskaland er samkomutakmörkunum aflétt að því marki á næstu dögum að verslanir í húsnæði minna en 800 fermetrar að flatarmáli má aftur opna. Bókabúðir, bílaumboð og hjólaverslanir verða einnig opnaðar, óháð stærð.
Dánartíðni vegna kórónuveirunnar er lág í Þýskalandi. Þótt 145.184 hafi greinst með veiruna hafa aðeins 4.586 látist. Hlutfall látinna er því aðeins rúmur fjórðungur af því sem er á Spáni, þar sem 198.674 hafa veikst en 21.238 látist.