Netanjahú heldur völdum

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, og Benny Gantz, formaður Bláhvíta bandalagsins, …
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, og Benny Gantz, formaður Bláhvíta bandalagsins, hafa náð samkomulagi um myndun ríkisstjórnar. Netanjahú verður forsætisráðherra til 1. október 2021 en þá tekur Gantz við. AFP

Benjamín Netanjahú mun halda áfram í embætti forsætisráðherra Ísraels, en samningar tókust í dag um þjóðstjórn tveggja stærstu flokka landsins, Likud-flokks Netanjahú og Bláhvíta bandalagsins sem Benny Gantz, fyrrverandi herforingi, fer fyrir.

Stjórnarkreppu, sem ríkt hefur í Ísrael um hríð, hefur því verið afstýrt en eftir að flosnaði upp úr viðræðum flokkanna í síðustu viku var óttast að boða þyrfti til fjórðu kosninganna í landinu á rúmu ári. Svo fer þó ekki því í kvöld tilkynntu leiðtogar flokkanna tveggja að þeir hefðu komist að samkomulagi. 

Netanjahú mun gegna embætti forsætisráðherra fram í október 2021, er kjörtímabilið er hálfnað. Að svo búnu mun Gantz taka við embættinu.

Í yfirlýsingu er samkomulaginu lýst sem „neyðarúrræði“ í ljósi kórónuveirufaraldursins. Stefnubreyting Gantz var óvænt enda hafði Bláhvíta bandalag Gantz verið stofnað flokki Netanjahú til höfuðs. Endurtók Gantz í kosningabaráttum liðins árs ítrekað loforð sín um að starfa aldrei með forsætisráðherra sem sætir ákærum fyrir spillingu, og átti þar við Netanjahú.

Netanjahú hefur verið ákærður fyrir margvísleg brot í starfi, mútuþægni og fjársvik, auk þess sem eiginkona hans hefur verið dæmd fyrir að hafa misnotað opinbert fé í eigin þágu. Til stóð að réttarhöld yfir Netanjahú hefðust í mars en þeim hefur verið frestað til 24. maí vegna kórónuveirufaraldursins.

Eygir von um að geta snúið dómi Hæstaréttar

Meðal ásteytingarsteina flokkanna tveggja var andstaða Bláhvíta bandalagsins við frumvarp sem Netanjahú hafði í hyggju að leggja fram og heimilar ríkisstjórninni að snúa úrskurði Hæstaréttar landsins ef ske kynni að dómurinn kæmist að þeirri niðurstöðu að dæmdur maður megi ekki gegna embætti forsætisráðherra.

New York Times greinir frá því að samkomulag flokkanna feli í sér að fallið verði frá þessari lagabreytingatillögu, sem telja má vissan sigur fyrir Bláhvíta bandalagið. Aftur á móti náðist samkomulag um að falli dómur í Hæstarétti á næstu sex mánuðum muni Netanjahú geta rofið þing og boðað til nýrra kosninga. Ætla má að hann muni þar freista þess að ná hreinum þingmeirihluta, sem gæti í kjölfarið breytt lögum til að tryggja áframhaldandi valdasetu forsætisráðherrans þaulsetna. Netanjahú hefur gegnt embætti forsætisráðherra frá árinu 2009, lengst allra.

Mótmælendur í Tel Aviv komu saman í dag, með tveggja …
Mótmælendur í Tel Aviv komu saman í dag, með tveggja metra millibili, til að mótmæla áformum Netanjahú sem þeir segja andlýðræðisleg. AFP

Málamiðlanir um alþjóðalög

Netanjahú og Gantz hafa ólík viðhorf til deilu Ísraela og Palestínumanna, og tillagna Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um lausn á henni. Netanjahú hafði í kosningabaráttunni heitið því að stór svæði á landtökubyggðum Vesturbakkans yrðu innlimuð í Ísraelsríki einhliða að kosningum loknum, á sama tíma og Gantz hafði lofað að slík innlimun færi ekki fram nema með stuðningi alþjóðasamfélagsins; eitthvað sem telja má ólíklegt.

Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að innlimunaráformum skuli frestað, til 1. júlí hið fyrsta. Þá verði hún að vera framkvæmd með öryggi Ísraels í huga, „þar með talið möguleikann á að varðveita stöðugleika svæðisins, vernda núgildandi friðarsamkomulag og stefnuna á frekari friðarumleitanir,“ eins og það er orðað í sáttmálanum. Ekki er hlaupið að því að skilja hvað þessi orð eiga að þýða, en til þess er leikurinn kannski gerður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert