Skaut 16 til bana í Nova Scotia

Flaggað í hálfa stöng í Kanada í kjölfar árásarinnar.
Flaggað í hálfa stöng í Kanada í kjölfar árásarinnar. AFP

Vopnaður maður sem dulbjóst sem lögregla skaut að minnsta kosti sextán til bana í Nova Scotia um helgina. Skotárásin er sú mannskæðasta í sögu Kanada. Að sögn lögreglu var árásarmaðurinn skotinn til bana eftir að lögregla hafði elst við hann í hálfan sólarhring.

Árásarmaðurinn hefur verið nafngreindur af lögreglu en hann hét Gabriel Wortman og var 51 árs að aldri.

Meðal fórnarlamba hans er lögreglukona með yfir 20 ára starfsreynslu en að sögn lögreglu var fyrst tilkynnt um skothvelli í bænum Portapique, í 100 km fjarlægð frá Halifax, á laugardagskvöldið. Lögreglukonan, Heidi Stevenson, er ein þeirra sem tóku þátt í eftirförinni og skaut árásarmaðurinn hana til bana. Hún lætur eftir sig tvö börn. Lögreglumaður særðist einnig en er ekki í lífshættu að sögn lögreglu.

Lögreglukonan Heidi Stevenson er ein þeirra sem fjöldamorðinginn skaut til …
Lögreglukonan Heidi Stevenson er ein þeirra sem fjöldamorðinginn skaut til bana í Nova Scotia um helgina. AFP

Vopnað ofbeldi er mun sjaldgæfara í Kanada en í nágrannaríkinu Bandaríkjunum og vopnalöggjöfin mun harðari. Árásin nú er sú mannskæðasta í Kanada en árið 1989 voru 14 nemendur, allt konur, við tækniháskólann í Montreal skotnir til bana og var það mannskæðasta skotárásin hingað til í landinu.

Kanadíska sjónvarpsstöðin CBC hefur eftir lögreglu að vitað sé um 16 fórnarlömb fjöldamorðingjans. 

Dagblaðið National Post segir að grunnskólakennari sé meðal fórnarlamba og vísar í facebookfærslu systur kennarans.

AFP

Nokkur fórnarlömb fundust bæði innan- og utandyra í Portapique og þaðan elti lögregla árásarmanninn og eins og áður sagði lauk eftirförinni tólf tímum síðar með því að lögreglan skaut árásarmanninn til bana.

Að sögn lögreglu klæddist árásarmaðurinn lögreglubúningi og ók um á bifreið sem svipaði til lögreglubifreiðar. Ekkert bendir til þess að um hryðjuverk hafi verið að ræða en fjöldamorðið er í rannsókn lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert