„Skrímsli myrti móður mína í dag“

Kanadískur karlmaður fór hamförum víða um Nova Scotia í gær …
Kanadískur karlmaður fór hamförum víða um Nova Scotia í gær áður en tókst að stöðva hann. Honum tókst að verða minnst 18 manns að bana, en líkin eru áfram að koma í ljós. AFP

Dóttir fórnarlambs í árásum í Nova Scotia um helgina hafði heyrt í móður sinni rétt áður en hún varð árásarmanninum að bráð. „Hún var falleg manneskja og átti ekki neitt af þessu skilið.“

Darcy Dobson, dóttir hjúkrunarfræðingsins Heather O'Brien sem var skotin til bana í gærmorgun, segir móður sína hafa verið á ferð sömu leið og hún keyrir á hverjum degi. „Hún sendi okkur síðustu skilaboðin klukkan 9.59. Klukkan 10.15 var hún farin,“ skrifar hún á Facebook.

„Sorgin kemur og fer í bylgjum. Mér líður eins og ég sé utan eigin líkama,“ skrifar Dobson. „Skrímsli myrti móður mína í dag. Myrti hana, án þess að hugsa sig tvisvar um.“

Heather O'Brien þekkti morðingjann ekki frekar en sautján fórnarlömbin hans hin, en þessa stundina eru þau talin hafa verið minnst 18. Morðinginn, 51 árs gamall kanadískur tannsmiður að nafni Gabriel Wortman, er talinn hafa farið af stað með eitthvert tiltekið skotmark í huga en  að þegar hann hafi hafið skothríðina hafi hann misst stjórn á sér og haldið áfram í tólf klukkustundir að drepa saklaust fólk sem varð á vegi hans.

Hann byrjaði í Portapique og endaði á að aka 100 kílómetra dulbúinn sem lögregluþjónn á lögreglubíl frá kanadísku lögreglunni. Fyrsta útkallið var vegna skotárásar við einbýlishús, þar sem látnir fundust bæði inni og fyrir utan. Þaðan náði Wortman að ferðast langt og koma víða við en eftir langan eltingarleik var hann skotinn til bana á bensínstöð í Halifax. 

Lítið er vitað um hvað vakti fyrir Wortman en það hefur verið rifjað upp að fyrir sex árum rataði verkefni á hans vegum í fréttir, en þá var hann að smíða ókeypis tennur fyrir krabbameinssjúkling sem hafði misst allar tennurnar. Hér er það myndband, þar sem sjá má viðtal við árásarmanninn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert