Kanadabúar eru hvattir til að sameinast í bæn á föstudagskvöld til að minnast fórnarlamba í árásum í Nova Scotia um helgina. Sökum aðgerða sem eru í gildi vegna kórónuveirufaraldursins eru fjöldasamkomur ekki leyfðar og því verður um eins konar fjarminningarstund að ræða.
„Eftir því sem við vitum meira um atburðarrás gærdagsins er mikilvægt að við sameinumst og styðjum hvort annað,“ segir Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. Skotárásin er sú mannskæðasta í sögu Kanada en fórnarlömbin voru að minnsta kosti 18.
Trudeau segir að ríkisstjórn hans hafi verið á barmi þess að innleiða bann gegn árásarvopnum þegar hefðbundnum þingstörfum var frestað sökum kórónuveirunnar.
Morðinginn, 51 árs gamall kanadískur tannsmiður, er talinn hafa farið af stað með eitthvert tiltekið skotmark í huga en að þegar hann hafi hafið skothríðina hafi hann misst stjórn á sér og haldið áfram í tólf klukkustundir að drepa saklaust fólk sem varð á vegi hans. Rannsókn lögreglu er umfangsmikil en að minnsta kosti 16 mismundi staðir eru hluti af rannsókninni.