Trump leggur til tímabundið bann

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að hann muni tímabundið banna fólki að flytja til Bandaríkjanna vegna „ósýnilega óvinarins“ kórónuveirunnar. Þetta skrifar forsetinn á Twitter. 

Á fjórum mánuðum hefur kórónuveirufaraldurinn breytt nánast öllu í heiminum þar sem helmingur jarðarbúa býr við útgöngubann að einhverju leyti og tæplega 170 þúsund hafa látist af völdum veirunnar. Gripið hefur verið til aðgerða sem hafa mikil áhrif á líf fólks um gervallan heiminn, meðal annars á efnahagslífið. 

Trump, sem hefur stutt á bak við þá sem hafa mótmælt aðgerðum ríkisstjóra einstakra ríkja til þess að hefta útbreiðslu veirunnar, segir á Twitter að vernda þurfi störf bandarískra ríkisborgara og því muni hann skrifa undir tilskipun um að fólki verði tímabundið bannað að setjast að í Bandaríkjunum. 

Að minnsta kosti 22 milljónir Bandaríkjamanna hafa misst vinnuna síðan samkomubann tók gildi í landinu og í ákveðnum ríkjunum er farið að gæta óþolinmæði meðal einhverra stuðningsmanna Trump í garð stjórnvalda vegna aðgerða sem hefur þurft að grípa til vegna kórónuveirunnar. 

Nokkur hundruð einstaklingar tóku þátt í „göngu föðurlandsvina (Patriots Rally)“ í Pennsylvaníu og mátti þar sjá spjöld með áletrunum eins og „Gefið mér frelsi eða dauða að öðrum kosti.“

Ein þeirra sem tóku þátt, Rose Bayer, 50 ára, segir í samtali við AFP-fréttastofuna að það sé bilun að loka heiminum vegna sjúkdóms þar sem batahorfurnar eru 98%. „Fólk mun svelta, það fremur sjálfsvíg, það missir allt út af þessu. Lækningin — líkt og Trump segir — lækningin getur ekki verið verri en sjúkdómurinn,“ segir hún samkvæmt frétt AFP-fréttastofunnar.

Þrátt fyrir fólk eins og Bayer og aðgerðir mótmælenda hafi vakið mikla athygli í fjölmiðlum þá eru nánast allir Bandaríkjamenn, eða fjórir af hverjum fimm, á öðru máli og sáttir við aðgerðir sem gripið hefur verið til, samkvæmt könnun Quinnipiac.

Í frétt BBC kemur fram að í Bandaríkjunum hafi verið staðfest 787 þúsund staðfest smit COVID-19 og yfir 42 þúsund hafi látist. Þar kemur fram að Trump láti þessi ummæli falla á Twitter á sama tíma og Hvíta húsið segi að það versta sé að baki og að landið geti farið að hefja enduropnun. 

Ekki liggur fyrir á þessari stundu á hverja fyrirhugað bann forsetans hefur en þetta hefur ekki verið staðfest af hálfu Hvíta hússins. Í síðasta mánuði stöðvuðu bandarísk yfirvöld nánast allar vegabréfsáritanir, þar á meðal innflytjenda, vegna faraldursins. Bandarísk yfirvöld hafa nú þegar gert samkomulag við bæði Kanada og Mexíkó um að framlengja ferðatakmarkanir milli ríkjanna vegna ferðalaga sem ekki eru nauðsynleg fram í miðjan maí. Gagnrýnendur forsetans, samkvæmt BBC, segja að hann sé að nýta sér faraldurinn til þess að klekkja á innflytjendum.

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, sést hér á daglegum upplýsingafundi vegna …
Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, sést hér á daglegum upplýsingafundi vegna kórónuveirunnar í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert