Hærri dánartíðni hjá þeim sem tóku hýdroxýklórókín

Dánartíðnin var 27,8% á meðal þeirra 97 sem tóku lyfið.
Dánartíðnin var 27,8% á meðal þeirra 97 sem tóku lyfið. AFP

Þeir sjúklingar sem fengið hafa lyfið hýdroxýklórókín til að vinna á sýkingu af völdum kórónuveirunnar hafa ekki reynst ólíklegri til að þurfa á öndunarvélum að halda. Dánartíðni þeirra hefur auk þess verið hærri en hjá þeim sem ekki hafa fengið lyfið við veirunni.

Þetta sýna niðurstöður rannsóknar sem tók til hundraða sjúklinga á bandarískum sjúkrahúsum fyrir fyrrverandi hermenn.

Mikilvægt að bíða eftir frekari niðurstöðum

Niðurstöðurnar, sem fengnar voru með því að skoða sjúkraskrár sjúklinganna, voru birtar á vefnum medrxiv.org í gærdag, en þar birtast vísindagreinar áður en þær fara í gegnum ritrýni og síðar útgáfu í læknisfræðiritum.

Af þeim sjúklingum sem rannsóknin tók til var dánartíðnin 27,8% á meðal þeirra 97 sem tóku lyfið. Í samanburði var tíðnin aðeins 11,4% hjá þeim 158 sem ekki tóku lyfið.

Þeir sem að rannsókninni stóðu segja niðurstöðurnar varpa ljósi á mikilvægi þess að beðið sé eftir niðurstöðum frekari rannsókna áður en notkun lyfsins verður útbreidd, að því er fram kemur í umfjöllun fréttastofu CNN.

Trump sagði lyfið byltingarkennt

Bandaríska Lyfja- og matvælaeftirlitið hefur ekki viðurkennt neinar vörur sem vinna eiga gegn sjúkdómnum sem kórónuveiran veldur. Virkni margra lyfja er þó þegar til rannsóknar. Hýdroxýklórókín hefur til áratuga verið notað til að hjálpa fólki með sjúkdóma á borð við malaríu, lúpus og liðagigt.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt lyfið byltingarkennt hvað varðar Covid-19-sjúkdóminn. Læknar hafa varað við því að þrátt fyrir mikinn áhuga forsetans á lyfinu þá þurfi enn að rannsaka virkni þess og öryggi.

Fimm­tíu þúsund pakk­ar af lyf­inu komu til Íslands fyrr í mánuðinum, í boði lyfja­fyr­ir­tæk­is­ins Al­vo­gens, en pakk­ana keypti það á Indlandi. Á lyfið að duga til meðferðar 25 þúsund sjúk­linga hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert