Tvær manneskjur sem létust í byrjun og um miðjan febrúar í Kaliforníu voru með kórónuveiruna þrátt fyrir að fyrsta dauðsfallið af völdum veirunnar í Bandaríkjunum hafi ekki verið tilkynnt fyrr en nokkrum vikum síðar.
Krufning hefur leitt í ljós að fólk sem lést á heimilum sínum 6. febrúar og 17. febrúar var með kórónuveiruna að sögn dánardómstjóra í Santa Clara-sýslu en hann gafi í gær út yfirlýsingu þar að lútandi eftir að hann fékk þetta staðfest af hálfu Centers for Disease Control and Prevention, CDC, stofnunar sem hefur með sjúkdómavarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir að gera. Hið sama eigi við um manneskju sem lést í Santa Clara-sýslu 6. mars.
Í yfirlýsingu dánardómsstjórans kemur fram að fólkið hafi allt dáið á heimilum sínum á sama tíma og sýnataka var að hefjast í Bandaríkjunum og aðeins í boði í gegnum CDC.
Forsenda fyrir því að fá að koma í greiningu hjá CDC á þessum tíma var að viðkomandi hafi ferðast úr landi og þeir sem þyrftu á heilbrigðisþjónustu að halda vegna ákveðinna sjúkdóma.
Hann segist eiga von á því að fleiri sambærileg mál muni koma upp á næstunni. Það er að fólk í Santa Clara hafa látist vegna COVID-19 en hingað til hefur verið talið.
Fyrsta dauðsfallið af völdum kórónuveirunnar var tilkynnt og skráð í Washington-ríki 26. febrúar. Telja sérfræðingar á heilbrigðissviði að vegna skorts á sýnatökubúnaði séu líkur á að umfang kórónuveirufaraldursins í Bandaríkjunum sé vanmetið. Í rannsókn sem birt var í vikunni kemur fram að faraldurinn sé mun útbreiddari þar en opinberar tölur segja.
Blóðsýni sem tekin voru úr 3.300 sjálfboðaliðum í Santa Clara-sýslu sýna að 50 sinnum fleiri hið minnsta eru með COVID-19 en staðfest smit gefa til kynna í sýslunni samkvæmt rannsókn Stanford háskóla.
Santa Clara var meðal fyrstu svæða í Bandaríkjunum þar sem yfirvöld fyrirskipuðu fólki að halda sig heima en útgöngubann, með ákveðnum undantekningum, var sett þar 17. mars.
Yfir 800 þúsund smit hafa verið staðfest í Bandaríkjunum og yfir 45 þúsund eru látnir þar í landi.