Kórónaveiran hefur dregið tæplega 50 þúsund Bandaríkjamenn til dauða en í gær voru skráð 3.176 andlát samkvæmt tölum frá Johns Hopkins háskólanum. Um er að ræða skráð dauðsföll á einum sólarhring, til klukkan 20:30 að bandarískum tíma, klukkan 00:30 í nótt. Þetta þýðir að dauðsföll af völdum kórónuveirunnar í Bandaríkjunum eru 49.759 talsins.
Einn af hverjum fimm sem tóku þátt í mótefnamælingu í New York borg reyndust hafa myndað mótefni fyrir veirunni. Þetta þykir benda til þess að mun fleiri hafi smitast af veirunni þar en áður var talið. New York Times greinir frá þessu í gærkvöldi en um bráðabirgða niðurstöður rannsóknarinnar er að ræða.
Andrew M. Cuomo, ríkisstjóri í New York, sagði í gær að þetta gæti bent til þess að veiran væri útbreiddari í ríkinu en áður hefði verið talið.
Alls hafa verið staðfest 866.646 smit í Bandaríkjunum og fjölgaði þeim um tæplega 27 þúsund í gær. Aftur á móti er erfitt að komast að í sýnatöku og talið er að mun fleiri séu sýktir af veirunni en tölurnar benda til samkvæmt frétt AFP-fréttastofunnar.
Ríkin Georgia og Texas eru byrjuð að undirbúa afléttingu samkomubanns og heimila einhverjum fyrirtækjum að hefja starfsemi að nýju.
Cuomo fjallað um sýnatökur á fundi með blaðamönnum í gær en þar kynnti hann bráðabirgðaniðurstöður úr mótefnaprófum úr þrjú þúsund einstaklingum í borginni sem voru valdir af handahófi. Þetta þykir benda til, að sögn Cuomo, að allt að 2,7 milljónir borgarbúa, sem höfðu ekki hugmynd um að þeir hefðu smitast af veirunni, hafi þegar fengið COVID-19 og batnað. Hann segir að svo útbreidd sýking geti þýtt að dánarhlutfallið sé mun lægra en áður var talið.
Heilbrigðisyfirvöld víða í Bandaríkjunum eru nú að rannsaka hversu margir Bandaríkjamenn hafi þegar fengið veiruna en hafa aldrei farið í sýnatöku og greinst með hana. Niðurstöður þessara rannsókna virðast sýna svipaða niðurstöðu og rannsókn Northeastern háskólans um að kórónuveiran hafi verið byrjuð að dreifa sér snemma í febrúar á New York svæðinu og fleiri stórborgum í landinu.
Í Kaliforníu benda rannsóknir til þess að allt að 4% íbúa Santa Clara hafi myndað mótefni og 5% í Los Angeles. Þetta er hærra hlutfall smita en sýnataka bendir til en alls ekki jafn hátt hlutfall og fyrstu niðurstöður úr rannsókninni í New York sýna.
Nýverið var upplýst um að kona sem lést í Santa Clara 6. febrúar hafi verið með kórónuveiruna.
Í New York borg reyndust 21% þeirra sem tóku þátt í mótefnamælingunni hafa myndað mótefni. Á Long Island er hlutfallið 17% og tæp 12% í Westchester og Rockland en innan við 4% annars staðar í New York ríki.
Samkvæmt NYT voru tekin blóðsýni hjá þrjú þúsund manns á tveimur dögum. Þar af voru 1300 sýni tekin hjá fólki í verslunum í New York borg. Blóðprufurnar voru rannsakaðar í rannsóknarstofu ríkisins, Wadsworth í Albany, sem er samkvæmt NYT virt rannsóknarstofa.