Er í alvöru verið að opna flugvöllinn?

Og loks, rúmum 3500 dögum á eftir áætlun, er nýr …
Og loks, rúmum 3500 dögum á eftir áætlun, er nýr flugvöllur að opna í Berlín í haust. Það er, ef allt fer samkvæmt áætlun, sem það hefur einmitt ekki gert hingað til. Ljósmynd/Flughafen Berlin Brandenburg

„Maður ætlar varla að trúa þessu: Flugvöllurinn er tilbúinn.“ Svo hljóðaði fyrirsögn Berliner Zeitung fyrr í vikunni, eins tveggja stórra dagblaða Berlínar. Tortryggni blaðamanns er ósköp skiljanleg: Umræddur flugvöllur, nefndur eftir stað og sambandslandi Berlín-Brandenburg, er orðinn alræmdur fyrir að virðast aldrei ætla að opna. Eftir langa bið virðist þetta þó ætla að hafast og þá einmitt nú, þegar megn alls flugs liggur niðri víða um heim.

Fyrsta skóflustungan að flugvellinum var tekin árið 2006 eftir fimmtán ár af skrafi og ráðagerðum. Hann átti upprunalega að opna í mars 2011 en opnunin hefur síðan fengið tugi nýrra dagsetninga. Sú nýjasta var 31. október 2020 og margsviknir Berlínarbúar hafa hingað til tekið henni með sama fyrirvara og öðrum.

Nú hefur þó hið ómögulega gerst, að þessi dagsetning hefur verið endanlega staðfest og er kórónuveirufaraldrinum talið það til tekna að hafa liðkað fyrir þeirri staðfestingu. Minni umferð almennt á að hafa greikkað yfirferð eftirlitsstofnana á ýmsum þáttum starfseminnar, og þar með er loks komin forsenda til að hrinda henni af stað. 

BER er eins konar viðbygging við Schönefeld og tekur líklega …
BER er eins konar viðbygging við Schönefeld og tekur líklega yfir starfsemina þar að lokum. Ljósmynd/Flughafen Berlin Brandenburg

Ein samfelld runa vonbrigða

Eins og nærri má geta eru vandræðin í framkvæmdunum mikið blaðamál í Berlín og raunar er eftirvæntingin svo mikil að dagblöð borgarinnar hafa sum löngu komið fyrir dálki á síðum sínum sem telur niður dagana í opnun. Þá er miðað við nýjustu uppgefnu dagsetningu en einnig talið aftur á bak til upprunalegra áforma, og munar ekki nema 3532 dögum.

Framkvæmdasaga þessa nýja flugvallar hefur verið ein samfelld runa vonbrigða fyrir borgarbúa, sem hafa í millitíðinni þurft að gera sér að góðu flugvellina Tegel og Schönefeld hingað til, en hinn síðarnefndi hefur verið fyrir sitt leyti ítrekað verið sæmdur titlinum „versti flugvöllur í heimi.“

Flugvellirnir tveir gömlu verða þó áfram starfandi, en hinn nýi, skammstafaður BER, tekur þó við þunga umferðarinnar, enda á hann að verða þriðji stærsti flugvöllur í Þýskalandi þegar starfsemi hefst.

Forstjóri rekstrarfélags flugvallarins segir við Berliner Zeitung að hann sjái eins og aðrir að flugumferð verði ekki mikil fyrst um sinn, þar sem augljóslega setji kórónuveirufaraldurinn áberandi strik í reikninginn. Hann vonast þó til þess að í október verði einhver hreyfing komin á málin, og þar með fólkið, og þar með flugvélarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert