ESB dró úr gagnrýni á Kína eftir þrýsting

Kínverskir embættismenn höfðu samband við fulltrúa Evrópusambandsins og reyndu að …
Kínverskir embættismenn höfðu samband við fulltrúa Evrópusambandsins og reyndu að koma í veg fyrir útgáfu skýrslunnar. AFP

Evrópusambandið dró úr gagnrýni á Kína í skýrslu um blekkingar tengdar heimsfaraldri kórónuveirunnar, eftir þrýsting frá stjórnvöldum í Peking. Frá þessu greinir bandaríska dagblaðið New York Times í kvöld. Skýrslan var birt í dag en blaðið hefur upprunalegu skýrsluna undir höndum, sem átti að koma út á þriðjudag.

Þegar eintökin eru borin saman sjást breytingar frá fyrri útgáfunni, sem ekki var gefin út.

Sú útgáfa er í umfjöllun blaðsins sögð hafa ekki verið sérlega beitt. Safnað hafi verið saman upplýsingum sem þegar voru aðgengilegar almenningi, ásamt fréttaskýringum.

Gögn í vörslu blaðsins, auk tölvupósta og viðtala, eru hins vegar sögð sýna hvernig evrópskir embættismenn töfðu útgáfu skýrslunnar á þriðjudag og skrifuðu hana upp á nýtt, til að draga úr vægi mikilvæga viðskiptalandsins í austri.

Fundarherbergi leiðtogaráðs Evrópusambandsins.
Fundarherbergi leiðtogaráðs Evrópusambandsins. AFP

Reyndu að koma í veg fyrir útgáfu skýrslunnar

Í upprunalegu útgáfunni var bent á viðleitni kínverskra stjórnvalda til að draga úr öllu tali um að veiran hefði átt uppruna sinn í Kína. Það hefðu þau reynt meðal annars með því að saka Bandaríkin um að hafa dreift sjúkdómnum á alþjóðavísu.

Þá var tekið fram að stjórnvöld í Peking hefðu ýtt undir falskar ásakanir þess efnis að franskir stjórnmálamenn hefðu viðhaft kynþáttafordóma í garð yfirmanns Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

„Kína hefur haldið áfram að reka herferð blekkinga á alþjóðavísu til að varpa af sér sök á að faraldurinn hafi brotist út og til að bæta ímynd sína í alþjóðasamfélaginu,“ sagði í skýrslunni þá.

En kínverskir embættismenn höfðu samband við fulltrúa Evrópusambandsins og reyndu að koma í veg fyrir útgáfu skýrslunnar. Í tölvupósti sem komið hefur fyrir augu blaðamanna New York Times, og skrifaður var á þriðjudag, varar evrópskur diplómati við hefndum af hálfu Kína.

Frá landamæraborginni Suifenhe í norðausturhluta Kína.
Frá landamæraborginni Suifenhe í norðausturhluta Kína. AFP

Setningin fjarlægð og tilvísanir horfnar

Og þegar samantekt skýrslunnar fór í loftið í dag, hafði setningin um „herferð blekkinga á alþjóðavísu“ (e. global disinformation campaign) verið fjarlægð. Sömuleiðis voru horfnar vísanir til gagnrýni Kína á Frakkland og til þjarkanets (e. bot network) til stuðnings Kína í Serbíu.

Sérstakur kafli um ríkisstyrktar blekkingar, þar sem tekin voru fyrir Kína og Rússland, hafði þá verið felldur inn í skýrsluna í stað þess að standa stakur.

New York Times segir breytingarnar hafa reitt suma diplómata og blekkingarsérfræðinga til reiði. Að minnsta kosti einn sérfræðinganna mótmælti og sagði í skeyti til yfirmanna sinna að Evrópusambandið væri að „sjálfritskoða sig til að þóknast kínverska kommúnistaflokknum“.

Vinnuhópur um upplýsingaóreiðu hér á landi

Hér á landi ákvað Þjóðaröryggisráð fyrr í vikunni að koma á fót „vinnuhópi til að kortleggja birtingarmyndir og umfang upplýsingaóreiðu í tengslum við COVID-19 hér á landi og gera tillögur um aðgerðir til þess að sporna gegn henni“, eins og segir í tilkynningu frá stjórnarráði.

Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar og ein þeirra sem sæti eiga í hópnum, en alls skipa hann níu manns, vísaði í samtali við RÚV fyrr í mánuðinum til miðlægrar deildar innan framkvæmdastjórnar ESB, sem hafi það hlutverk að skoða falsfréttir frá öðrum ríkjum.

Benti hún að settur hefði verið á laggirnar samráðshópur evrópskra fjölmiðlanefnda, þar sem tekið væri saman allt sem verið væri að gera til að sporna gegn upplýsingaóreiðu innan ríkjanna, og þær upplýsingar gerðar aðgengilegar fyrir öll ríkin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert