Samkvæmt samantekt úr skýrslu, sem var birt á vefsíðu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og stuttu síðar tekin út, misheppnaðist rannsókn á lyfinu Remdesivir, sem hefur lofað góðu í baráttunni við kórónuveiruna.
Landspítali gerði ráðstafanir til að reyna að fá lyfið til Íslands í upphafi faraldurs en það tókst ekki. Er eftirspurn á heimsvísu sögð ástæða þess. Bandaríska lyfjatæknifyrirtækið Gilead stendur að framleiðslu lyfsins.
Hlutabréfamarkaðir brugðust illa við fréttunum en lyfið hafði veitt einhverjum fjárfestum von um betra efnahagsástand fyrr í vikunni.
Samantektin sem birt var á heimasíðu WHO sagði frá rannsókn sem framkvæmd var í Kína en rannsakendurnir sem stóðu á bak við hana höfðu ekki samþykkt birtingu niðurstaðanna.
Remdesivir er tilraunalyf sem upphaflega var þróað til að meðhöndla ebólu. Það er enn ekki samþykkt til að meðhöndla ebólu né neinn annan sjúkdóm. Rannsóknir sem Gilead framkvæmdi höfðu sýnt að það gæti virkað í baráttunni við kórónuveirur eins og þær sem valda SARS og MERS. Kínverskir rannsakendur höfðu því samband við Gilead og fengu að nota það til að meðhöndla veikustu COVID-19 sjúklingana sem ættu enga aðra von.
Eftir að Gilead samþykkti það hófu kínverskir læknar formlegar rannsóknir á Remdesivir. Rannsóknin var gerð á tveimur hópum, alvarlega veikum annars vegar og sjúklingum með vægari sjúkdóm hins vegar. Í báðum rannsóknum var lyfið borið saman við lyfleysu.
Um miðjan apríl voru báðar rannsóknirnar stöðvaðar þegar læknarnir gátu ekki fengið meira en 400 sjúklinga til að taka þátt í hvorum rannsóknarhóp fyrir sig en þeir hefðu þurft þann fjölda svo rannsóknin gengi upp.