Ítalir setja fram afléttingaráætlun

Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu.
Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu. AFP

Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, flutti í kvöld sjónvarpsávarp þar sem hann fór yfir það hvernig „kafli tvö“ í baráttunni við útbreiðslu kórónuveirunnar yrði. Gengur sá kafli út á að aflétta þeim höftum sem sett hafa verið, en fyrstu skrefin verða stigin 4. maí, sama dag og slík skref verða stigin hér á Íslandi.

Ítalía hefur þó búið við nokkuð strangari höft en Íslendingar, eða útgöngubann. Verður fólki heimilað að fara og heimsækja ættingja sína frá og með 4. maí, en þó í litlum hópum. Þá munu almenningsgarðar opna á ný, en skólar verða áfram lokaðir fram í september. BBC greinir frá.

Útgöngubannið á Ítalíu er það lengsta sem hefur verið í gangi í Evrópu, en þar hafa einnig flestir látist af völdum veirunnar. Samtals hafa 197.675 tilfelli veirunnar greinst í landinu og staðfest er að 26.644 hafi látist af völdum hennar, samkvæmt tölum John Hopkins-spítalans.

Fjöldi tilfella hefur verið á niðurleið undanfarið, en í dag hafa 260 látist í landinu vegna veirunnar og hefur fjöldinn ekki verið lægri síðan 14. mars, eða í 42 daga.

Auk þess að heimsóknir verði heimilaðar verður fólki heimilað að ferðast innan þess héraðs sem það býr í. Jarðarfarir verða heimilaðar á ný, en 15 manns að hámarki mega vera við hverja athöfn. Íþróttafólk fær að æfa á ný utandyra, en aðeins í næsta nágrenni við heimili sitt.

Gert er ráð fyrir að hárgreiðslustofur, barir og veitingastaðir opni aftur 1. júní og búðir sem ekki flokkist undir mikilvæga innviði (eins og matvöruverslanir) opni 18. maí, líkt og söfn og bókasöfn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert