1.000 kvartanir á mánuði í garð Norwegian

Norska flugfélagið Norwegian á yfir höfði sér svo mörg kvörtunarmál …
Norska flugfélagið Norwegian á yfir höfði sér svo mörg kvörtunarmál vegna seinkana og niðurfellinga flugferða að til skoðunar er nú að stofna sérstaka deild við gerðardómstólinn í Bærum í Noregi sem sinni eingöngu málum á hendur Norwegian. Ljósmynd/Norwegian

„Ég get staðfest að við erum með þúsundir mála sem bíða meðferðar hjá okkur,“ segir Alexander Dey, sýslumaður í Ósló, Bærum og Asker í Noregi, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, en umfjöllunarefnið er kvörtunarmál gagnvart norska flugfélaginu Norwegian sem náð hafa áður óþekktum hæðum það sem af er ári.

Dey segir alls 3.000 kvartanir á hendur flugfélaginu hafa borist allt árið í fyrra, nú hafi þær hins vegar verið 1.000 á mánuði frá áramótum og bíði stærstur hluti þeirra meðferðar gerðardóms í Bærum, eða forliksrådet eins og hann heitir.

Svo rammt kveður að málastraumnum frá óánægðum viðskiptavinum að við gerðardóminn er nú til skoðunar að koma á fót sérstakri deild sem eingöngu sinnir kvörtunum í garð Norwegian. Nánast hvert einasta kvörtunarmál snýst um brot á reglugerð Evrópusambandsins nr. 261/2004 um bætur til handa farþega vegna seinkunar eða niðurfellingar flugs.

Kvartanafyrirtæki atkvæðamikil

Þrætueplið í langflestum málanna er hvort seinkunin eða niðurfellingin falli innan vébanda þeirra bótareglna, sem reglugerðin fjallar um, eða hvort um óviðráðanlegar ytri aðstæður hafi verið að ræða sem flugfélagið gat með engu móti stjórnað.

Kvartanirnar streyma hvaðanæva úr heiminum til Bærum þar sem aðalskrifstofa Norwegian er í því sveitarfélagi. „Svona er að vera með aðalskrifstofu flugfélags innan umdæmisins,“ segir Dey við NRK. Oft berist kvartanirnar frá sérstökum fyrirtækjum, sem sérhæfa sig í aðstoð við hlunnfarna flugfarþega, svo sem hinu alþjóðlega AirHelp og danska félaginu Flyhjælp aps og fleirum.

Þessi bunki af kvörtunum barst dómstólnum einn og sama daginn …
Þessi bunki af kvörtunum barst dómstólnum einn og sama daginn í mars. Málin eru öll vegna Norwegian. Ljósmynd/Gerðardómstóllinn í Bærum

Félög þessi reki málið fyrir gerðardómnum fyrir fólk sem ekki treystir sér til þess sjálft. Þau taki svo hluta bótanna sem greiðslu fyrir þjónustuna fari þau með sigur af hólmi. „Eins og staðan er núna er biðin eftir málsmeðferð eitt ár, afköstum gerðardómaranna eru takmörk sett. Fleiri mál koma inn en við getum afgreitt og röðin lengist bara og lengist,“ segir Dey.

Vill sérstaka deild fyrir Norwegian

Hann segir ekki vanþörf á sérstakri deild við gerðardóminn sem sinni eingöngu málum vegna Norwegian. Slík ráðstöfun kallaði á þrjár nýjar dómarastöður auk fimm aðstoðarmanna dómaranna, nokkuð sem kosta myndi yfir fjórar milljónir norskra króna, jafnvirði nálægt 60 milljóna íslenskra króna.

Norska dómsmálaráðuneytinu hafi verið gerð þörfin fyrir þessa ráðstöfun ljós. Í fyrra tók gerðardómurinn við 3.000 kvörtunum vegna Norwegian og afgreiddi um 2.000 þeirra. Dómur var kveðinn upp í 660 málum en í um það bil 1.200 gerðu málsaðilar sátt fyrir dómnum sem fól í sér bótagreiðslu af hálfu flugfélagsins.

Lögmaðurinn Hans Christian Steenstrup flytur mál farþega fyrir hönd danska fyrirtækisins Flyhjælp. Áætlar hann að hafa flutt 225 mál eða þar um bil fyrir gerðardómnum í Bærum í fyrra sem snerust um Norwegian. Steenstrup er nú með fjölda mála í bið. „Af þeim málum sem við fórum með fyrir dóminn í fyrra hafa aðeins örfá nú verið afgreidd,“ segir lögmaðurinn við NRK og bætir því við að afgreidd mál séu um 25, eða tíundi hluti allra málanna.

Fjöldi mála vegna sömu flugferðanna

Þegar NRK innti talsmenn Norwegian eftir þeirra sýn á stöðu mála og kvartanafjallið mikla svaraði Astrid Mannion-Gibson upplýsingafulltrúi í tölvupósti:

„Norwegian er eitt stærstu flugfélaga Evrópu og flytur tugi milljóna farþega ár hvert. Þess vegna er því miður fleiri kröfum beint að okkur. Fjöldi þessara mála er vegna sömu flugferðanna svo umfangið verður verulegt. Þættir sem við höfum enga stjórn á (nýju Boeing 737 MAX-vélarnar okkar kyrrsettar auk vandræða með hreyfla Dreamliner-vélanna) hafa einnig ýtt undir fjölda krafna um bætur,“ skrifaði Mannion-Gibson.

NRK (rætt við Jacob Schram forstjóra Norwegian í dag)

Aftenposten


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert