„Heimurinn hefði átt að hlusta“

Tedros Adhanom Ghebreyesus.
Tedros Adhanom Ghebreyesus. AFP

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) sendi snemma út sína hæstu mögulegu viðvörun vegna kórónuveirunnar en ekki fóru allar þjóðir heims eftir þessum ráðleggingum. Þetta sagði Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður stofnunarinnar, í dag.

Hann benti á að WHO hefði varað við COVID-19 sem „neyðarástandi vegna almannaheilbrigðis á alþjóðavísu“ 30. janúar þegar enginn hafði látist af völdum veirunnar og aðeins 82 tilfelli höfðu greinst utan Kína.

„Þá hefði heimurinn átt að hlusta vel og vandlega á WHO,“ sagði hann á blaðamannafundi á netinu.

Þess má geta að hættustig WHO vegna veirunnar hækkaði reyndar enn frekar í lok febrúar frá því mánuði áður og í mars var því svo lýst yfir að um heimsfaraldur væri að ræða.  

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hætti að veita stofnuninni fjármagn fyrr í mánuðinum eftir að hann sakaði hana um að hafa gert lítið úr alvarleika veirunnar og látið undan Kínverjum, þar sem kórónuveiran greindist fyrst seint á síðasta ári. Trump hefur ekki lagt fram neinar sannanir fyrir þessar staðhæfingu sinni.

Tedros sagði að stofnunin hefði lagt frá góðar ráðleggingar strax frá byrjun „byggðar á góðum ráðum og vísindum“. Hann tók þó fram að WHO „hafi ekki vald til að neyða þjóðir til að fara að okkar ráðum“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert