„Við höfum unnið þessa orrustu“

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, á blaðamannafundi í dag.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, á blaðamannafundi í dag. AFP

Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern, segir að landið hafi náð afar góðum árangri í baráttunni við kórónuveiruna og hvergi sé um hópsmit að ræða. Í dag var byrjað að draga úr höftum í landinu eftir að hafa í fimm vikur verið með nánast allt lokað. „Við höfum unnið þessa orrustu,“ segir Ardern.

Í dag mega einhver fyrirtæki hefja starfsemi að nýju í Nýja-Sjálandi, veitingastaðir sem selja mat til að taka með heim verða opnaðir að nýju og skólar hefja starfsemi.

AFP

Ardern varar við því að ekki sé vitað hvenær ekkert smit greinist og eðlilegt líf geti hafist að nýju í landinu. Hún segir að eðlilega vilji allir að eðlileg félagsleg samskipti geti hafist að nýju. Samskipti sem allir sakni en til þess að svo verði þurfi að fara hægt að stað og beita ýtrustu varkárni við afnám hafta.

„Ég mun ekki taka áhættuna á að fórna þeim framförum sem við höfum náð varðandi heilbrigði nýsjálensku þjóðarinnar. Þannig að ef við þurfum að vera áfram á stigi 3 gerum við það.“ 

Alls eru íbúar Nýja-Sjálands 5 milljónir talsins. Alls hafa 1.122 greinst með kórónuveiruna þar og 19 þeirra látist. Eitt nýtt smit greindist þar síðasta sólarhringinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert