Tom Hagen var í morgun handtekinn fyrir morð eða hlutdeild í morði á eiginkonu sinni, Anne-Elisabeth Hagen, að því er fram kom á blaðamannafundi norsku lögreglunnar nú í morgun. Lögreglan vildi ekkert segja um ástæðu meints morðs en Tom Hagen verður yfirheyrður síðar í dag.
Hagen hefur verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald. Lögreglan útilokar ekki að frekari handtökur fari fram vegna málsins.
„Eftir 18 mánaða rannsókn er Tom Hagen handtekinn vegna gruns um morð eða hlutdeild í morði á eiginkonu sinni,“ kom fram í máli lögreglu.
Anne-Elisabeth hvarf af heimili sínu í október fyrir hálfu öðru ári og hefur hennar verið leitað síðan. Fyrst var talið að hún hefði verið numin á brott og heimtuðu meintir mannræningjar lausnargjald en eiginmaður hennar er einn auðugasti maður Noregs.
Tom Hagen var handtekinn í morgun þar sem hann var á leið frá heimili þeirra hjóna í Sloraveien í Lørenskog á leið til vinnu í Futurum.
Lögregla telur nú að Anne-Elisabeth hafi ekki verið numin á brott af heimili sínu, eins og fyrst var haldið. Ekkert hefur spurst til hennar frá því í október 2018.
Ýmsar tillögur tengdar málinu hafi verið hraktar og grunsemdir lögreglu um sekt Tom Hagen hafi smám saman styrkst, kom fram í máli rannsóknarlögreglumannsins Tommy Brøske.