Hagen-málið í hnotskurn

Lögreglumaður með hund við heimili Hagen-hjónanna í morgun eftir að …
Lögreglumaður með hund við heimili Hagen-hjónanna í morgun eftir að milljarðamæringurinn Tom Hagen var handtekinn, grunaður um að hafa ráðið konu sína, Anne-Elisabeth Hagen, af dögum, eða átt aðild að vígi hennar. Hún hvarf sporlaust 31. október 2018 og rannsökuðu 100 lögreglumenn málið mánuðum saman. AFP

Hvarf Anne-Elisabeth Hagen, eiginkonu norska fjárfestisins og milljarðamæringsins Tom Hagen, að morgni 31. október 2018, varð tilefni lögreglurannsóknar sem vart á sér hliðstæðu í umfangi í Noregi síðan David Toska og hópur hans frömdu NOKAS-ránið í Stavanger vorið 2004.

Eftir 18 mánaða lögreglurannsókn handtók lögregla fjárfestinn í stóraðgerð í morgun, skammt frá heimili þeirra hjóna í Lørenskog, svo sem fjölmiðlar hafa fjallað um í dag, og verður, að sögn lögreglu, fjögurra vikna gæsluvarðhaldsúrskurðar krafist yfir milljarðamæringnum sem grunaður er um að hafa annaðhvort stytt konu sinni aldur ellegar átt hlut að máli í vígi hennar í samstarfi við óþekkta vitorðsmenn.

Hagen var á skrifstofu sinni í Futurum-byggingunni á Rasta þennan morgun, en auk þess að vera umsvifamikill í fasteignafjárfestingum er þessi sjötugi verkfræðingur líkast til þekktastur fyrir orkufyrirtæki sitt Elkraft sem selur rafmagn um alla Skandinavíu. Er Hagen í 172. sæti á lista 400 auðugustu íbúa Noregs.

Þegar hann kom á heimili sitt á ný, klukkan 13:30, var eiginkona hans horfin en hótunarbréf á bjagaðri norsku beið Hagen. Var hann þar krafinn um níu milljónir evra í lausnargjald fýsti hann að sjá maka sinn á ný auk þess sem gefnir voru upp tólf kóðar fyrir samskipti hans við þann eða þá sem stæðu að baki hvarfinu, sex sem honum væri ætlað að nota og sex ætlaðir hinum. Sem dæmi táknaði talan 1 frá Hagen „Ég staðfesti að ég mun greiða“ og talan 4 „Ég er í vandræðum, ég þarf meiri tíma“, en úr hinni áttinni táknaði talan 2 „Of langur tími, hún er látin“ og talan 5 „Öll greiðslan hefur ekki borist“. Greiðslumiðillinn átti að vera rafmyntin monero sem er órekjanleg.

Síðasta lífsmark klukkan 09:14

Síðustu teikn um Anne-Elisabeth á lífi er símtal sem hún hringdi klukkan 09:14 þennan morgun til ótilgreinds ættingja. Blátt bann var lagt við því í bréfinu að Hagen hefði samband við lögreglu. Hann hringdi fyrst í lögregluna klukkan 14:00 og greindi frá málinu. Til að fela samskiptin féllust lögreglumenn á leynilegan fund með Hagen á bensínstöð við Knatten, ekki langt frá heimili hans, og varð sá fundur upphafið að lögreglurannsókn sem enn stendur.

Ida Melbo Øystese, aðstoðarlögreglustjóri lögreglunnar í Nedre-Romerike, greinir frá handtöku …
Ida Melbo Øystese, aðstoðarlögreglustjóri lögreglunnar í Nedre-Romerike, greinir frá handtöku Hagen á blaðamannafundi í morgun. AFP

Líf Anne-Elisabeth var talið velta á að rannsóknin væri í fullkominni kyrrþey og varð því tveggja vikna ítarleg rannsókn tæknideildar lögreglunnar á heimili hjónanna í Fjellhamar í Lørenskog að vera nánast ósýnileg. Tæknideildarmenn dulbjuggust nú sem iðnaðarmenn og fleira og gáfu nágrönnum ýmsar skýringar á umferð sinni. Lögregla hafði samband við nágrannana og tjáði þeim að grunur léki á að gengi innbrotsþjófa hefði verið á ferð í hverfinu upp á síðkastið og hvort þeir hefðu orðið varir við grunsamlegar mannaferðir. Grunsamlegustu mannaferðirnar að mati nágrannanna var þó lögreglan sjálf.

Á nágranna í næstu húsum, sem þekktu hjónin mjög vel, runnu brátt tvær grímur, jafnvel þrjár. Vitað var að Tom Hagen og Anne-Elisabeth gengu jafnan snemma til náða, skyndilega loguðu ljós á heimili þeirra alla nóttina, reyndar allan sólarhringinn.

Peugeot með Mözdu-númer

Einn nágranninn, Rolf Letvik, fletti upp skráningarnúmerinu á hvítri Peugeot-sendiferðabifreið, sem jafnan stóð fyrir utan húsið, og komst að því sér til undrunar að númerin voru af Mözdu. Hann var hundaeigandi eins og nágrannar hans og hittust þau Anne-Elisabeth nær undantekningarlaust daglega á götu við viðrun hinna ferfættu. Nú sást hún ekki. Þá var skyndilega engin leið að ná í þau hjónin í síma. Það reyndi annar nágranni, Tore Skansen. Örskömmu síðar hringdi lögreglan hins vegar í hann og boðaði hann til skýrslutöku eftir að hann hringdi í númer Hagen.

Peugeot-sendibifreið lögreglunnar stóð dögum saman við hús Hagen-hjónanna á meðan …
Peugeot-sendibifreið lögreglunnar stóð dögum saman við hús Hagen-hjónanna á meðan tæknideildin fínkembdi það. Árvökull nágrenni fletti númerinu upp og komst að því að það var af Mözdu. Ljósmynd/Úr einkasafni

Það voru þó ekki fyrstu samskipti Skansen við lögregluna í málinu. Daginn sem Anne-Elisabeth hvarf höfðu tveir óeinkennisklæddir lögreglumenn bankað upp á hjá honum síðdegis og tjáð honum að þrettán ára drengs væri saknað í hverfinu og hvort þeir mættu sitja við stofugluggann hjá honum í von um að koma auga á hann, en úr þeim glugga blasti hús Hagen-hjónanna við. Skansen brást vel við beiðninni en þegar lögreglumennirnir sátu enn við gluggann klukkan ellefu um kvöldið bað hann þá vinsamlegast um að yfirgefa svæðið.

Á tveimur vikum sneri tæknideild lögreglunnar húsinu bókstaflega á hvolf. Hver einasti fersentimetri var fínkembdur í leit að vísbendingum. Í ljós komu fleiri skrifuð skilaboð á nokkrum blöðum og lögðust málfræðingar í ítarlegar rannsóknir á málfari og stíl í þeirri von að draga hið minnsta þjóðerni höfundar fram í dagsljósið. Enn er ekkert vitað um þann eða þá sem þarna voru á ferð. Hafi þeir yfirleitt nokkurn tímann verið til.

300 skókaupendur

Löngu síðar, í fyrra, fundu rannsakendur dularfullt skófar eftir skó númer 45 af gerðinni Sprox sem þegar hleypti af stað umfangsmikilli rannsókn í skóbúðum víða um land. Tókst að hafa uppi á um 300 kaupendum Sprox-skóa númer 45 en sú vinna endaði að lokum í blindgötu.

Lögregla hélt öllu saman kirfilega leyndu í tíu vikur eða þar til þögnin var loks rofin á blaðamannafundi 9. janúar 2019 og greint frá því opinberlega að eiginkona eins af auðugustu mönnum landsins hefði horfið sporlaust af heimili sínu í október. Norskur almenningur stóð höggdofa. Blaðamannafundir urðu nú daglegt brauð og varð Tommy Brøske, rannsóknarlögreglumaður og stjórnandi rannsóknarinnar, þjóðþekktur í einu vetfangi.

Anne-Elisabeth Hagen hvarf sporlaust 31. október 2018. Lögregla telur nær …
Anne-Elisabeth Hagen hvarf sporlaust 31. október 2018. Lögregla telur nær útilokað að hún sé á lífi. AFP

Falaðist lögregla nú eftir aðstoð almennings, hvert einasta smáatriði gæti skipt máli. Ekki stóð á viðbrögðunum, 16. janúar höfðu eitt þúsund vísbendingar borist, rúmlega hundrað lögreglumenn lögðu nótt við dag í leit sinni að einhverju haldreipi, jafnvel bara spotta. Hvorki gekk né rak. Þennan sama dag, 16. janúar, féllst bandaríska alríkislögreglan FBI á að veita aðstoð sína við rannsóknina. Eins komu Europol og Interpol að málinu og gaf síðarnefnda stofnunin út alþjóðlega lýsingu eftir Anne-Elisabeth.

Áhyggjur af tígrisránum

Eivind Borge, deildarstjóri taktískrar rannsóknardeildar (n. taktisk etterforskningsavdeling) norsku rannsóknarlögreglunnar Kripos, ræddi við mbl.is 11. janúar í fyrra og sagði Kripos lengi hafa óttast að til svokallaðra „tígrisrána“ kæmi í Noregi, brottnáms eða gíslatöku eins eða fleiri aðila, eða fullyrðinga um að hafa framkvæmt slíkt, í því augnamiði að þvinga starfsmann, ættingja eða einhvern annan til að veita aðgengi að reiðufé eða öðrum fjárhagslegum verðmætum í vörslum stofnunar, fyrirtækis eða fjölskyldu.

„Þetta brottnámsmál ber mörg einkenni þess sem við köllum tígrisrán og aðferðafræðin sem þarna er beitt er vel þekkt erlendis frá. Þess vegna höfum við haft mannrán og svipuð atvik á dagskránni hjá okkur nú síðustu ár,“ sagði Borge við mbl.is.

Fjórtánda janúar í fyrra kom Svein Holden, lögmaður fjölskyldunnar, fram í afbrotaumræðuþættinum Åsted Norge á TV2 og biðlaði til þess eða þeirra sem stæðu á bak við hvarfið að senda frá sér einhvers konar staðfestingu á að Anne-Elisabeth væri á lífi, væri fjölskyldan öll af vilja gerð að finna lausn á málinu, en Hagen-hjónin eiga þrjú börn á fertugs- og fimmtugsaldri.

Lögreglumenn á heimili Hagen-hjónanna í Fjellhamar í Lørenskog, rétt utan …
Lögreglumenn á heimili Hagen-hjónanna í Fjellhamar í Lørenskog, rétt utan við Ósló, skömmu eftir að Tom Hagen var handtekinn í morgun. AFP

Sextánda og 27. janúar bárust fjölskyldunni skilaboð frá einhverjum gegnum stafrænan samskiptamiðil. Engin staðfesting barst þó á að Anne-Elisabeth væri á lífi og samskiptin voru með þeim hætti að ekki var hægt að svara skilaboðum, aðeins taka við þeim.

Upp úr þessu taka ný tíðindi af málinu að verða æ fátíðari. Rannsóknin hélt áfram en lögregla hafði ekkert til að hengja hatt sinn á í málinu þrátt fyrir að hafa snúið öllum steinum, meðal annars var vatn við heimili hjónanna slætt, Langvannet, leitað var með hundum um allt skóglendið í Lørenskog og nágrenni og lögregluyfirvöld um gervalla Skandinavíu fylgdust með í sínum ranni.

211 milljóna rannsókn

Í janúar á þessu ári hafði rannsóknin á hvarfi Anne-Elisabeth Hagen kostað 15 milljónir norskra króna, jafnvirði um 211 milljóna íslenskra króna, og er þá launakostnaður lögreglu, þar á meðal yfirvinna, ekki meðtalinn.

Undir júnílok í fyrra upplýsti lögreglan um þá nýju höfuðkenningu sína í málinu að Anne-Elisabeth hefði verið myrt. Holden lögmaður greindi svo frá því í ágúst að fjölskyldan hefði heyrt frá meintum mannræningja eða -ræningjum á ný. Hafi þá verið fullyrt að hún lifði en engin gögn látin fylgja þessu til jarteikna.

Skömmu áður, 3. ágúst, hafði norska dagblaðið VG greint frá því að Tom Hagen hefði greitt 10 milljónir norskra króna, 141 íslenska milljón á gengi dagsins í dag, fyrir upplýsingar sem gæfu til kynna hvort kona hans lifði.

Lögregla á vinnustað fjárfestisins og auðkýfingsins Tom Hagen, Futurum-byggingunni á …
Lögregla á vinnustað fjárfestisins og auðkýfingsins Tom Hagen, Futurum-byggingunni á Rasta, í morgun. AFP

Hagen var hins vegar ekki kunnugt um að fyrr um sumarið höfðu stjórnendur rannsóknarinnar gengið á fund ríkissaksóknara og falast eftir leyfi til að hefja leynilega rannsókn á fjárfestinum auðuga. Var leyfið veitt og fóru lögreglumenn með leynd inn á heimili Hagen og komu fyrir hlerunarbúnaði um allt hús. Var svo hlustað á hvert orð sem Hagen mælti af vörum innan veggja heimilisins frá morgni til kvölds mánuðum saman, en slökkt á búnaðinum um nætur.

Vildi losna úr hjónabandinu

Ýmis kurl tóku nú að koma til grafar, þó ekki öll, og fóru rannsakendur að raða saman brotum sem bentu til þess að enginn fjárhagslegur ávinningur hefði nokkurn tímann búið að baki hvarfinu. Upplýsingar bárust um að Anne-Elisabeth hefði rætt það við fleiri en einn og fleiri en tvo að hún hefði átt í stormasömu hjónabandi við mann sinn, hjónabandi sem hún vildi gjarnan losna úr, samkvæmt dagblaðinu VG.

Eins upplýsir NRK í dag að öll auðæfi manns hennar hafi verið skráð hans séreign og fengi hún ekkert kæmi til skilnaðar þeirra.

Grunur lögreglunnar stóð að lokum nægilega styrkum fótum til að fjölmennt lögreglulið lét til skarar skríða í morgun eftir 18 mánaða rannsókn þar sem að því er virtist örvæntingarfullur og syrgjandi eiginmaður var innsti koppur í búri. Einn auðugasti maður Noregs.

Stórfelld og skipulögð afvegaleiðing

„Miðað við það sem ég veit um þetta mál er það mjög ólíklegt að Tom Hagen hafi staðið einn á bak við þetta,“ segir Jørn Lier Horst, fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður og nú þekktur glæpasagnahöfundur í Noregi, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK í dag. Hann segir rannsóknina nú munu snúast að miklu leyti um að hafa uppi á samstarfsmanni eða -mönnum Hagen.

Framburður lögreglu á blaðamannafundi í morgun styður kenningu Horst en þar kvað lögregla ekki hægt að útiloka að fleiri ættu aðild að málinu.

„Lögreglan telur af öllum sólarmerkjum að dæma að í málinu sé um að ræða stórfellda og skipulagða afvegaleiðingu [n. villledning]. Grunurinn í garð Tom Hagen hefur styrkst jafnt og þétt,“ sagði Tommy Brøske rannsóknarstjórnandi.

Hagen lýsti nú fyrir skömmu yfir sakleysi sínu og kvaðst ekki hafa komið nálægt hvarfi konu sinnar. Verði hann ákærður á síðari stigum gæti sú ákæra hljóðað upp á manndráp af yfirlögðu ráði (overlagt drap) vegna skipulagningarinnar en þar er refsirammi norskra hegningarlaga 21 ár.

Annar ákæruliður yrði þá nær örugglega þaulskipulögð aðgerð til að kasta með ásetningi ryki í augu lögreglunnar sem fyrir vikið stofnaði til 18 mánaða langrar sakamálarannsóknar með tilheyrandi kostnaði.

Þetta kemur í ljós.

NRK

NRKII

NRKIII

NRKIV

VG

VGII

Aftenposten

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert