Norska lögreglan handtók í morgun Tom Hagen, eiginmann Anne-Elisabeth Hagen sem hefur verið saknað á annað ár. Norska dagblaðið VG greinir frá þessu og hefur fengið staðfest hjá lögreglu að búið sé að girða af heimili þeirra hjóna og tæknideild lögreglunnar sé þar að störfum.
Anne-Elisabeth Hagen hvarf sporlaust af heimili sínu í október 2018 og hefur verið leitað síðan. Fyrst var talið að hún hefði verið numin á brott og heimtuðu meintir mannræningjar lausnargjald en eiginmaður hennar er einn auðugasti maður Noregs.
Samkvæmt fréttum norskra fjölmiðla var Hagen handtekinn klukkan 8:30 að staðartíma í morgun, klukkan 6:30 að íslenskum tíma. Lögregla stöðvaði hann þar sem hann var á leið frá heimili þeirra hjóna í Sloraveien í Lørenskog á leið til vinnu í Futurum.
Samkvæmt VG lokaði lögregla af svæðinu og voru fjölmargir lögreglubílar á staðnum þegar aðgerðin fór fram. Þegar fréttamenn norska ríkisútvarpsins komu á staðinn var búið að fjarlægja bifreið Hagen og aðgerðum lokið.
Skömmu eftir handtökuna fór lögregla bæði á heimili þeirra Anne-Elisabeth og Tom Hagens og skrifstofu hans í Futurum og stendur yfir húsleit þar.
Að sögn lögreglu verður boðað til blaðamannafundar klukkan 10:30, klukkan 8:30 að íslenskum tíma.
Fram kemur í fréttum norska fjölmiðla að Tom Hagen hafi alla tíð verið samvinnuþýður lögreglu vegna hvarfs eiginkonu hans. Hann hefur haldið því fram að innlendir glæpamenn beri ábyrgð á hvarfi Anne-Elisabeth og að þeir hafi krafist lausnargjalds.