Uggandi yfir veikindum barna sem geta tengst veirunni

Breska heilbrigðiskerfið (NHS) sendi frá sér tilkynningu um helgina þar …
Breska heilbrigðiskerfið (NHS) sendi frá sér tilkynningu um helgina þar sem fram kemur að nokkur tilfelli hafa komið upp þar sem börn finna fyrir óvenjulegum einkennum, svo sem magaverkjum og bólgum í kringum hjartað. AFP

Heilbrigðiráðherra Bretlands er uggandi yfir einkennum sem börn hafa sýnt sem mögulega má rekja til kórónuveirunnar. 

Breska heilbrigðiskerfið (NHS) sendi frá sér tilkynningu um helgina þar sem fram kemur að nokkur tilfelli hafa komið upp þar sem börn finna fyrir óvenjulegum einkennum, svo sem magaverkjum og bólgum í kringum hjartað. Einkennin eru það alvarleg að börnin hafa verið lögð inn á gjörgæslu. 

„Ég er áhyggjufullur. Þetta er nýr sjúkdómur sem við teljum að kórónuveiran valdi,“ segir Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, en hann ítrekar að þörf sé á frekari rannsóknum áður en hægt sé að draga ályktanir. Börn sem hafa sýnt einkennin hafa ýmist greinst með kórónuveiruna eða ekki. Samkvæmt heimildum The Guardian er að minnsta kosti um 12 tilfelli að ræða. 

Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands.
Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands. AFP

„Ítarlega rannsóknir standa yfir núna. En ég vil leggja áherslu á að þetta eru fá tilfelli,“ segir Hancock, sem vill þó ekki gera lítið úr veikindum barnanna. 

Stephen Powis, yfirmaður lækninga hjá NHS, segir að of snemmt sé að segja til um hvort sjúkdómurinn tengist kórónuveirunni. 

Líkt og á heimsvísu hafa afar fá börn látið lífið af völdum kórónuveirunnar og fá dæmi eru um að börn veikist alvarlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert