Mikil ánægja með aðgerðir í Svíþjóð

Aðgerðir stjórnvalda í Svíþjóð hafa verið hófstilltari en víðast hvar.
Aðgerðir stjórnvalda í Svíþjóð hafa verið hófstilltari en víðast hvar. AFP

80 prósent aðspurðra í Svíþjóð telja ríkisstjórnina hafa staðið sig vel eða mjög vel í baráttunni við kórónuveiruna. Aðeins 16 prósent telja hana hafa staðið sig illa. Þetta eru niðurstöður skoðanakönnunar sem sjónvarpsstöðin TV4 lét framkvæma.

Ánægðastir eru stuðningsmenn Sósíaldemókrata, flokks Löfven forsætisráðherra, en 99 prósent þeirra segjast ánægðir með aðgerðir stjórnvalda. Þá er hlutfallið 89 prósent hjá samstarfsflokknum Græningjum, og 87 prósent hjá hægriflokknum Moderaterna. Óánægðastir eru kjósendur þjóðernisflokksins Svíþjóðardemókrata en engu að síður telja 53 prósent stuðningsmanna flokksins að stjórnvöld hafi staðið sig vel eða mjög vel. 

Aðgerðir sænskra yfirvalda hafa vakið athygli utan landsteinanna, en þau hafa farið hægar í sakirnar en flest nágrannaríki er kemur að lokun ýmissa fyrirtækja. Þannig mega kaffihús og veitingastaðir enn halda opnu og samkomubann miðast við 50 manns, samanborið við 20 hér á landi en 10 í nágrannaríkinu Danmörku. 

Þar með er þó ekki sagt að lífið í Svíþjóð gangi sinn vanagang. Háskólar eru lokaðir, fólk er hvatt til að halda sig heima og Valborg, stærsta stúdentafögnuði landsins sem fara ætti fram á morgun, hefur verið aflýst svo einhver dæmi séu tekin.

Markmiðið er að mynda hjarðónæmi, en að sögn sendiherra Svíþjóðar í Bandaríkjunum hafa nú 30% íbúa Stokkhólms myndað ónæmi fyrir veirunni. Um 20 þúsund tilfelli kórónuveirunnar hafa greinst í Svíþjóð og eru 2.400 látnir, sem samsvarar um 230 dauðsföllum á hverja milljón íbúa en það er svipuð dánartíðni og í Bandaríkjunum. Til samanburðar eru dauðsföll á hverja millón íbúa 28 hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert