Ferðamálaráðherrar ríkja Evrópusambandsins hittast á fjarfundi í dag þar sem þeir ræða áhrif kórónuveirunnar á ferðalög fólks. Gríski ráðherrann vonast til þess að fólk geti sótt landið heim í sumar.
Ráðherrarnir ræða hvernig fólk geti ferðast á nýjan leik þegar heimsfaraldur kórónuveiru hefur gengið yfir.
Gríski ferðamálaráðherrann Harry Theoharis segir að örugg ferðalög verði rædd á fundinum. Þar verði meðal annars farið yfir möguleika þess að fólk verði prófað fyrir kórónuveirunni áður en það stígur upp í flugvél.
„Við viljum fá fólk til Grikklands í sumar,“ sagði Theoharis í samtali við BBC.
„Auðvitað munu ákveðnar ráðstafanir gilda fyrir mögulega ferðalanga. Þetta mun einnig gilda um það hvernig fólk ferðast og dvelur; til að mynda á sólbekkjum,“ sagði Theoharis.