Ekkert innanlandssmit var staðfest í Suður-Kóreu í dag og er þetta fyrsti sólarhringurinn þar sem ekkert smit hefur greinst í landinu frá því fyrsta kórónuveirusmitið var staðfest þar fyrir meira en 70 dögum.
Heilbrigðisyfirvöld í Suður-Kóreu greindu frá einu dauðsfalli síðasta sólarhringinn þannig að alls eru 247 látnir þar. Alls hafa verið staðfest 10.765 smit í Suður-Kóreu frá 18. febrúar. Um tíma voru smitin næstflest þar í landi en yfirvöld náðu fljótt tökum á stöðunni með víðtækum sýnatökum og smitrakningu ásamt samkomubanni.
Þrátt fyrir faraldurinn gengu Suður-Kóreubúar að kjörborðinu 15. apríl og voru miklar ráðstafanir gerðar varðandi smit á kjörstöðum. Til að mynda þurftu kjósendur að bera andlitsgrímur og vera með hanska þegar þeir mættu á kjörstað og kusu.
Forseti Suður-Kóreu, Moon Jae-in, fagnaði árangri dagsins á Facebook í dag. „Í fyrsta skipti í 72 daga er ekkert innanlandssmit hjá okkur,“ skrifar hann. Hann segir að ekkert smit hafi komið upp á kjörstöðum og þetta sýni styrk Suður-Kóreu og þjóðarinnar.