Tom Moore heiðraður á 100 ára afmælinu

Tom Moore.
Tom Moore. AFP

Tom Moore, fyrrverandi kapteinn í breska hernum, var í dag sæmdur heiðursofursta tign en hann á 100 ára afmæli. Elísabet Englandsdrottning er meðal þeirra sem hafa sent honum kort í tilefni dagsins en Moore vakti heimsathygli með því að safna fé fyrir breska heilbrigðiskerfið.

Moore sem tók sig til nýverið og safnaði áheitum með því að ganga í hringi í garði sínum. Alls söfnuðust rúmlega 29 milljónir punda, 5,3 milljarðar króna. 

Breski herinn flaug sérstakt hópflug fyrir ofan heimili Moore í morgun á gömlum RAF-flugvélum. Hann hefur fengið yfir 125 þúsund afmæliskveðjur sendar frá fólki um allan heim.  

Moore segir sjálfur að það sé merkilegt að verða 100 ára og ekki síst þegar svo margir fagni með honum og sendi hamingjuóskir. Vegna kórónuveirunnar er Moore í sjálfskipaðri einangrun með dóttur sinni, Hannah Ingram-Moore, og fjölskyldu hennar á heimili hans í  Marston Moretaine, Bedfordshire. Hann ætlar að heyra í öðrum fjölskyldumeðlimum í gegnum netið í dag. 

„Munið alltaf að morgundagurinn verður góður dagur,“ segir Moore í samtali við BBC.

Auk þess að fá afmæliskort frá Elísabetu þá hljóðritaði forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, afmæliskveðju til Moore. Þar segir hann Moore vera sólargeisli í líf allra um þessar mundir. Johnson segist vita að hann tali fyrir munn allrar bresku þjóðarinnar þegar hann óski Moore til hamingju með 100 ára afmælið. 

Feðginin Tom Moore og Hannah Ingram-Moore.
Feðginin Tom Moore og Hannah Ingram-Moore. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert