Gefa grænt ljós á notkun ebólu-lyfs við kórónuveirunni

Fyrirtækið mun dreifa lyfinu til sjúkrahúsa endurgjaldslaust í maí.
Fyrirtækið mun dreifa lyfinu til sjúkrahúsa endurgjaldslaust í maí. AFP

Bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið hefur gefið út neyðarleyfi fyrir notkun á lyfinu remdesivir við meðferð sjúklinga með COVID-19 sjúkdóminn sem kórónuveiran veldur. Tilraunir með lyfið benda til þess að það stytti bataferli sjúklinga um allt að fjóra daga. Leyfið gildir aðeins á meðan faraldurinn stendur yfir en heilbrigðisyfirvöld gætu gefið fullt leyfi fyrir notkun lyfsins komi í ljós frekari virkni gegn veirunni. The Wall Street Journal greinir frá.

Remdesivir er veirulyf sem þróað var og prófað sem meðferð við ebóla-veiru. Og er það lyf sem hvað flestar tilraunir hafa verið gerðar með í tengslum við kórónuveiruna. Remdesivir er jafnframt fyrsta lyfið sem virðist gagnast að ráði við meðferð sjúklinga sem glíma við COVID-19

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, greindi frá tíðindunum á forsetaskrifstofunni í dag, en við hlið hans var Daniel O‘Day, framkvæmdastjóri lyfjafyrirtækisins Gilead sem framleiðir umrætt lyf. Forsetinn sagði lyfið „það heitasta í dag“ og „mikilvægt sem hluti af meðferð sjúklinga sem lagðir hafa verið inn á sjúkrahús vegna kórónuveirunnar. Þá sagðist hann hafa þrýst á lyfjaeftirlitið að veita neyðarleyfi fyrir notkun lyfsins.

„Við gerum okkur grein fyrir því að ábyrgðin er mikil og erum auðmjúk gagnvart því að þetta sé mikilvægt fyrsta skref fyrir þá sem hafa lagst inn á sjúkrahús,“ sagði O‘Day en Gilead mun starfa með yfirvöldum og dreifa lyfinu til þeirra sjúkrahúsa þar sem þörfin er mest. Fyrirtækið stefnir á að framleiða um 1,5 milljónir skammta fyrir lok maímánaðar, en þeir ættu að duga við meðferð 210 þúsund sjúklinga, sé miðað við að hverjum sjúklingi sé gefið lyfið í fimm daga. Fyrirtækið mun gefa sjúkrahúsunum lyfið í maí en O‘Day vildi ekki greina frá því hve mikið yrði rukkað fyrir lyfið eftir þann tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert