Pakistanskur blaðamaður fannst látinn í sænskri á

Að sögn fjölskyldu hans og vina var Hussain að vinna …
Að sögn fjölskyldu hans og vina var Hussain að vinna í því að koma eiginkonu sinni og tveimur börnum til Svíþjóðar. Þá ætlaði hann sér að hefja framhaldsnám við háskólann í Uppsölum. Skjáskot/Youtube

Pakistanskur blaðamaður sem hafði pólitískt hæli í Svíþjóð fannst látinn í á í Uppsölum 23. apríl síðastliðinn. Blaðamaðurinn, Sajid Hussain, flúði frá Pakistan árið 2012 eftir að umfjöllun hans um mannshvörf og mannréttindabrot í Pakistan urðu til þess að lögreglan réðst inn í hús hans og yfirheyrði fjölskyldu hans. 

Árið 2019 hlaut Hussain pólitískt hæli í Svíþjóð en hans hafði verið saknað síðan 2. mars síðastliðinn. Hussain sást síðast um borð í lest til Uppsala. 

Hussain hafði búið hjá vini sínum, Abdul Malik, í Stokkhólmi þegar hann hvarf. Hussain hafði rætt við Malik áður en hann fór að heiman og var hann þá í góðu skapi. Sömuleiðis hafði Hussain rætt við eiginkonu sína símleiðis og rætt glaðlega við hana um áform sín um að flytja í nýja íbúð í Uppsölum. 

Ekki útilokað að málið tengist blaðamennsku Hussains

„Við viljum bara að lögreglan rannsaki andlát Hussains svo fjölskylda hans og vinir fái einhver svör,“ segir Malik í samtali við Guardian. „Við viljum vita hvað gerðist.“

Lögreglan í Uppsölum segir ekki hægt að útiloka að andlát Hussains hafi borið að með saknæmum hætti en þó sé möguleiki á að um slys eða sjálfsvíg hafi verið að ræða. Á meðan ekki sé hægt að útiloka að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað segir lögreglan að dauðsfallið gæti tengst blaðamannastörfum Hussains. Utanríkisráðuneyti Pakistans hefur ekki viljað tjá sig um málið. 

Ætlaði að koma fjölskyldunni til sín

Hussain hélt blaðamennsku sinni áfram sem aðalritstjóri Balochistan Times, nettímarits sem hann stofnaði og stjórnaði erlendis frá. Þar skrifaði hann um eiturlyfjasmygl, mannshvörf og langvarandi óeirðir. 

Hussain kom fyrst til Svíþjóðar árið 2018 en áður hafði hann búið í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Óman og Úganda. Að sögn fjölskyldu hans og vina var hann að vinna í því að koma eiginkonu sinni og tveimur börnum til Svíþjóðar. Þá ætlaði hann sér að hefja framhaldsnám við háskólann í Uppsölum. 

Pakistan er talið eitt hættulegasta ríki heims fyrir blaðamenn, sem reglulega eru áreittir og drepnir. Samkvæmt lista samtakanna Blaðamanna án landamæra, RSF, árið 2019 yfir fjölmiðlafrelsi eftir löndum var Pakistan í 142. sæti af af 180 löndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert