Samskiptafjarlægð „ómöguleg“ á flugvöllum

Fjöldi fólks kemur við á Heathrow á degi hverjum, þó …
Fjöldi fólks kemur við á Heathrow á degi hverjum, þó færri þessa dagana vegna veirunnar. AFP

Ákjósanleg fjarlægð á milli fólks vegna útbreiðslu kórónuveiru er „líkamlega ómöguleg“ á flugvöllum, að sögn framkvæmdastjóra Heathrow flugvallar í London. 

„Samskiptafjarlægð (e. social distancing) gengur ekki upp innan neinna almenningssamgangna, hvað þá í flugi,“ hefur BBC eftir John Holland-Kaye, framkvæmdastjóra Heathrow.

Flugvöllurinn er einn sá fjölfarnasti í Evrópu en Kaye segir að flugvellir verði að kynna heilsuskoðanir til leiks og farþegar þurfi að klæðast grímum. Slíkar lausnir séu ákjósanlegri en samskiptafjarlægð. 

Þrír starfsmenn Heathrow fallið frá

Þrátt fyrir að Kaye segi ómögulegt að virða reglur um fjarlægð á milli fólks í flugi og á flugvöllum hefur breska stéttarfélagið GMB krafist þess að yfirmenn á Heathrow tryggi fjarlægð á milli fólks til þess að vernda starfsfólk og farþega. 

GMB heldur því fram að starfsmenn óttist að farþegar sem koma frá löndum sem enn eru að berjast við faraldurinn smiti þá af veirunni. Á síðustu tveimur vikum hafa þrír félagsmenn GMB sem starfa á Heathrow fallið frá vegna veirunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert