„Þetta er auðvitað hreint áfall“

Svein Holden, lögmaður Hagen-fjölskyldunnar til margra ára, hefur nú óvænt …
Svein Holden, lögmaður Hagen-fjölskyldunnar til margra ára, hefur nú óvænt fengið stöðu verjanda Tom Hagen, sem var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald í fyrradag, grunaður um að hafa myrt eða látið myrða eiginkonu sína, Anne-Elisabeth Hagen, sem hvarf sporlaust af heimili sínu 31. október 2018. AFP

„Þetta er honum ákaflega þungbært, hann er handtekinn og grunaður um að hafa myrt eiginkonu sína. Þetta er auðvitað hreint áfall, hann hefur lýst yfir sakleysi sínu varðandi hvarf konu sinnar og tjáð réttinum að hann hafi ekki komið nálægt þessu,“ segir Svein Holden lögmaður í samtali við mbl.is, verjandi norska fjárfestisins og auðmannsins Tom Hagen, sem í fyrradag var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald við Héraðsdóm Nedre-Romerike, rétt utan við Ósló.

Holden sagði norskum fjölmiðlum eftir að úrskurðurinn féll að honum þættu gögn lögreglunnar, sem lögð voru fyrir héraðsdómara, heldur rýr og héldu þau að hans mati ekki vatni.

„Ég get ekkert tjáð mig um það hver þessi gögn eru sem lögreglan lagði fram, ákveðið var á síðustu stundu að loka þinghaldinu og fór það svo fram fyrir luktum dyrum,“ segir Holden og bætir því við að vissulega sé það óvenjulegt að gæsluvarðhaldsþinghald, eða fengslingsmøte eins og það heitir á norsku, taki heilan dag, en þinghald héraðsdóms stóð frá hádegi og fram á kvöld á miðvikudaginn.

Svein Holden kemur á lögreglustöðina í Lillestrøm, rétt utan við …
Svein Holden kemur á lögreglustöðina í Lillestrøm, rétt utan við Ósló, á þriðjudaginn til fulltingis skjólstæðingi sínum, norska verkfræðingnum og fjárfestinum Tom Hagen, sem þá hafði nýlega verið handtekinn. AFP

Var Hagen á tímabili gert að yfirgefa dómsalinn á meðan lögregla lagði fram það sem kallað er klausulerte dokumenter, gögn sem grunaða er ekki kunnugt um og má ekki komast á snoðir um vegna rannsóknarhagsmuna þar sem hann gæti þá breytt framburði sínum við yfirheyrslur til samræmis við gögnin.

Telur gögnin ekki nógu sterk

Hagen var handtekinn á þriðjudagsmorgun og hefur Holden nú kært gæsluvarðhaldsúrskurðinn til lögmannsréttar sem er næsta dómstig fyrir ofan héraðsdóm. Hvenær skyldi vera von á niðurstöðu þaðan?

„Þetta verður tekið fyrir á mánudaginn og þarf vörnin þá að leggja fram skriflega greinargerð. Ég reikna með að niðurstaða lögmannsréttar liggi þá fyrir á miðvikudaginn,“ svarar Holden.

Skyldi lögreglu ekki vera uppálagt að leggja fram býsna afgerandi sönnunargögn til að knýja fram fjögurra vikna gæsluvarðhaldsúrskurð með bréfa- og heimsóknabanni, hreina einangrun?

„Jú, meginreglan er auðvitað að lögregla eða ákæruvald leggi fram gögn sem sýni svart á hvítu að meiri líkur en minni séu á að grunaði hafi framið það afbrot sem honum er gefið að sök, en í þessu máli tel ég að sönnunargögnin séu hreinlega ekki nógu sterk til að réttlæta gæsluvarðhaldsúrskurð,“ segir Holden.

Ræddi hann sjálfur við mannræningjana?

Áður en hann fékk formlega stöðu verjanda norska verkfræðingsins og auðmannsins var Holden lögfræðingur fjölskyldunnar og hefur fylgt skjólstæðingum sínum, Tom Hagen og þremur börnum þeirra Anne-Elisabeth, gegnum málið síðan það kom upp í október 2018 og auk annars komið fram í afbrotamálaþætti sjónvarpsstöðvarinnar TV2, Åsted Norge, þar sem hann biðlaði til mannræningjanna að komast að skynsamri lausn í málinu, fjölskyldan væri öll af vilja gerð til samninga.

Holden ræðir við fjölmiðlafólk úti fyrir Héraðsdómi Nedre-Romerike eftir gæsluvarðhaldsþinghaldið …
Holden ræðir við fjölmiðlafólk úti fyrir Héraðsdómi Nedre-Romerike eftir gæsluvarðhaldsþinghaldið í fyrradag sem tók nánast heilan dag. Að kröfu lögreglu var þinghaldinu lokað skömmu eftir að það hófst og slökkt á fjarfundabúnaði fjölmiðlafólks sem stóð fyrir utan bygginguna vegna kórónuveirufaraldursins. AFP

Ræddi Holden sjálfur við þennan mann eða menn sem talið er að beri ábyrgð á hvarfi Anne-Elisabeth Hagen?

„Samskipti hafa átt sér stað milli fjölskyldunnar og mannræningjanna í nokkrum tilfellum en ég get ekki tjáð mig neitt um það hvort ég sjálfur hafi tekið þátt í þeim samskiptum, ég veit heldur ekkert um þjóðerni þessara manna né nokkuð annað,“ segir Holden.

Hann segir þróun málsins næstu mánuði ráðast alfarið af því hvernig lögmannsrétturinn taki á kærunni vegna gæsluvarðhaldsúrskurðarins og hvert næsta útspil lögreglunnar verði sem rannsakað hefur málið í 18 mánuði, þar af í tæpt ár meintan þátt verkfræðingsins og eiginmannsins Tom Hagen.

Telur Holden þá nokkra von um að Anne-Elisabeth sé á lífi?

„Auðvitað finnst manni það ekki mjög líklegt eftir svona langan tíma en við verðum auðvitað bara að halda í vonina á meðan ekkert lík hefur fundist og við vitum ekki til þess fyrir víst að hún sé látin,“ segir Svein Holden að skilnaði, verjandi eins af auðugustu mönnum Noregs sem nú situr í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa myrt eða látið myrða eiginkonu sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert