Tugir létust í fangaóeirðum

Ástandið er erfitt víða um heim vegna kórónuveirufaraldursins, ekki síst …
Ástandið er erfitt víða um heim vegna kórónuveirufaraldursins, ekki síst í Venesúela. AFP

Talið er að um 40 fangar hafi látist eftir að óeirðir brutust út í fangelsi í Venesúela. Fangar í Los Llanos-fangelsinu, sem er skammt frá borginni Guanare í vesturhluta landsins, eru sagðir hafa verið mjög ósáttir við skort á matvælum og drykkjarvatni. 

Þetta kemur fram á vef BBC og er haft eftir samtökum sem hafa eftirlit með aðbúnaði fanga í landinu. 

Samtökin hafa kallað eftir því að málið verði rannsakað, en þau efast um þá opinberu skýringu yfirvalda að fangarnir hafi ætlað sér að brjóta sér leið út úr fangelsinu. 

Starfsmenn fangelsisins, þar á meðal fangelsisstjórinn, særðust í átökunum sem brutust út. 

Iris Vareld, ráðherra fangelsismála í Venesúela, segir í samtali við dagblað í heimalandinu að atvik hafi komið upp í fangelsinu, en hún gefur ekki upp hversu margir hafi særst eða látist. Í frásögn blaðsins er talað um að fangarnir hafi gert tilraun til að flýja. 

Fram kemur í frétt BBC, að óeirðum hafi farið fjölgandi að undanförnu í fangelsum í Rómönsku-Ameríku. Þar er víða hreinlæti ábótavant auk þess sem flest fangelsi eru yfirfull á sama tíma og stjórnvöld reyna að hefta útbreiðslu veirunnar.

Á meðal þeirra sóttvarnaaðgerða sem stjórnvöld hafa gripið til er að heimila ekki föngum að fá mat frá ættingjum sínum, sem margir hverja treysta á. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert