Bresk stjórnvöld greindu frá því í dag að þeim sóttvarnaaðgerðum sem gripið hafi verið til vegna kórónuveirufaraldursins verði að öllum líkindum aflétt í nokkrum skrefum.
Búist er við að Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, muni greina frá fyrirætlunum stjórnvalda innan fárra daga, en hann hefur sagt að faraldurinn hafi náð hámarki sínu í Bretlandi.
Að sögn yfirvalda hafa 28.446 látist af völdum veirunnar í landinu. Andlátum hefur fjölgað um 315 á einum sólarhring. Alls hafa 186.599 greinst með kórónuveirusmit í Bretlandi, en fjölgunin nemur 4.339 á einum sólarhring.
Johnson var fluttur á sjúkrahús í síðasta mánuði eftir að hafa sýkst af veirunni, en hann lá í þrjá daga á gjörgæsludeild. Hann greindi frá því í viðtali við sunnudagsblað The Sun að bresk stjórnvöld hefðu gert áætlanir ef svo færi að sjúkdómurinn hefði dregið hann til dauða. Þetta hefði verið erfitt en allt skipulag af hálfu yfirvalda hefði legið fyrir.