Þurfti marga lítra af súrefni til að lifa af

Boris Johnson er þakklátur læknunum sem önnuðust hann.
Boris Johnson er þakklátur læknunum sem önnuðust hann. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands þurfti „marga, marga lítra af súrefni“ til að hann lifði af, þegar hann var lagður inn á sjúkrahús alvarlega veikur af covid-19 sjúkdómnum, sem kórónuveiran veldur. Hann greinir frá þessu í blaðaviðtali í dag. BBC greinir frá.

Johnson segir að eftir að hafa dvalið í viku á St. Thomas sjúkrahúsinu í London hafi hann verið fullur innblásturs og viljað koma í veg fyrir að aðrir þyrftu að þjást, en jafnframt koma Bretlandi „aftur á lappirnar“.

Í lok síðustu viku eignaðist Johnson son ásamt unnustu sinni, Carrie Symonds, og var drengurinn nefndur Wilfred Lawrie Nicholas, en þriðja nafnið er í höfuðið á læknunum sem önnuðust hann á sjúkrahúsinu.

Í viðtalinu í The Sun segist forsætisráðherrann hafa verið tengur við allskonar mæla og honum hafi alltaf fundist þeir fara í öfuga átt. „Þetta var erfiður tími, ég neita því ekki,“ er haft eftir honum. Og hann spurði sig hvernig hann gæti komist út úr þessu.

Johnson greindist með kórónuveiruna 26. mars og var lagður inn á sjúkrahús tíu dögum síðar. Daginn eftir var hann fluttur á gjörgæslu þar sem honum hrakaði hratt. „Það var mjög erfitt að trúa því að heilsu minni hefði hrakað svona mikið á nokkrum dögum. Læknarnir bjuggu sig undir það ef mér skyldi hraka enn frekar.“

Þá greinir hann frá því að hann hafi einnig fengið frábæra umönnun þegar honum fór að líða betur. Honum fannst hann heppinn því hann vissi að margir aðrir þjáðust. „Ef þú spyrð mig hvort ég vilji gera allt sem í mínu valdi stendur til að koma í veg fyrir að aðrir þjáist, þá er svarið já, svo sannarlega. En ég finn einnig fyrir mikill þörf fyrir að koma landinu aftur á lappirnar, halda áfram eins og við erum fær um og ég er sannfærður um að við komumst þangað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert