Á sama tíma og forsetinn Donald Trump hvetur ríki Bandaríkjanna til að opna efnahag sinn á nýjan leik og koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað, sýna spár ríkisstjórnarinnar að fjöldi látinna á hverjum degi af völdum kórónuveirunnar muni nær tvöfaldast í þessum mánuði.
Samkvæmt minnisblaði innan úr ríkisstjórninni, sem dagblaðið New York Times hefur undir höndum, er búist við að 1. júní muni um 3.000 manns láta lífið vegna veirunnar. Um þessar mundir dregur hún um 1.750 manns dag hvern til dauða í landinu.
Þá er þess að auki spáð að undir lok þessa mánaðar verði dagleg ný tilfelli í kringum 200 þúsund, áttfalt fleiri en í dag þegar um 25 þúsund ný tilfelli mælast daglega.
Í umfjölliun blaðsins eru tölurnar sagðar undirstrika hve alvarlegur raunveruleikinn er: Þó Bandaríkin hafi ráðist í samkomutakmarkanir og aðrar aðgerðir síðustu sjö vikur, þá sé enn mikil áhætta til staðar. Og opnun samfélagsins á ný muni aðeins gera illt verra.
„Enn er mikill fjöldi sýslna sem sífellt bera þyngri byrðar,“ segir í aðvörun sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna sem fylgir minnisblaðinu.
Heilsutölfræðistofnun Washington-háskóla spáir nú nærri 135 þúsund dauðsföllum í Bandaríkjunum sökum veirunnar fram í byrjun ágúst. Talan hefur meira en tvöfaldast frá fyrri spá stofnunarinnar, sem gefin var út 17. apríl. Þá var 60 þúsund dauðsföllum spáð fyrir 4. ágúst, en nú þegar hafa fleiri en 68 þúsund látist.