Segja ummæli Pompeo „klikkuð“

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Kínverski ríkisfjölmiðillinn CCTV segir að nýleg ummæli Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um uppruna kórónuveirunnar séu bæði „klikkuð og útúrsnúningur“.

Pompeo sagði í gær að „mjög sterkar vísbendingar“ sýndu að veiran ætti uppruna sinn á rannsóknarstofu í Kína. Þessi kenning hefur ítrekað verið borin til baka bæði af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) og ýmsum vísindamönnum.

Ríkisstjórn Bandaríkjamanna hefur aftur á móti haldið þessari kenningu á lofti. Þar hafa viðbrögð Kínverja við útbreiðslu veirunnar, sem fyrst greindist í kínversku borginni Wuhan seint á síðasta ári, verið gagnrýnd.

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Kínverski fjölmiðillinn sagði að „hinn illi Pompeo væri að spýja eitri og dreifa lygum“. Vitnað var í ummæli Mike Ryan, yfirmann bráðadeildar WHO, og W. Ian Lipkin, veirufræðing hjá Columbia-háskóla um að orsakir veirunnar væru náttúrulegar, þær væru ekki af manna völdum og að veiran hefði ekki komið frá rannsóknarstofu.

„Þessi gölluðu og óskynsamlegu ummæli bandarískra stjórnmálamanna sýna sífellt fleira fólki að engin sönnunargögn eru til staðar,“ sagði fjölmiðillinn og bætti við að veiran hefði alls ekki komið frá rannsóknarstofu í Wuhan. Það væri helber lygi. „Bandarískir stjórnmálamenn eru fljótir að færa sökina annað, svindla í atkvæðagreiðslum og gera lítið úr Kína þegar þeirra eigin aðgerðir til að stöðva faraldurinn eru handónýtar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert