Þúsund milljarðar í rannsóknir á bóluefni

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. AFP

Leiðtogar nokkurra Evrópusambandsríkja samþykktu í gær áætlun um að verja sjö og hálfum milljarði evra, eða sem nemur rúmlega þúsund milljörðum króna, í rannsóknir á bóluefni við kórónuveirunni. 

Fjárhagsáætlunin var samþykkt fyrir helgi að sögn Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, en leiðtogar sambandsins koma saman á fjarfundi í dag til að ræða frekari útfærslur hennar. Fulltrúar Kanada, Japan, Noregs og Sádi-Arabíu munu einnig sitja fundinn. 

Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, tilkynntu um helgina að ríki þeirra ætli að verja auknu féi í rannsóknir á bóluefni við veirunni, sem smitað hefur yfir 3,5 milljónir jarðarbúa og dregið um 250 þúsund til dauða. 

Áætlunin mun „koma á fót fordæmalausu alþjóðasamstarfi milli vísindamanna, heilbrigðisstarfsfólks, eftirlitsaðila, atvinnulífsins, stjórnvalda og alþjóðlegra samtaka,“ að því er segir í yfirlýsingu leiðtoganna. 

Milljarðarnir þúsund munu þó ekki duga til að mati leiðtoganna, sem segja frekri fjármagn þurfa til að framleiða og dreifa bóluefni um heim allan þegar það verður fullbúið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert