Donald Trump Bandaríkjaforseti varar við því að allt að 100 þúsund geti látist af völdum kórónuveirunnar í Bandaríkjunum. Þetta kom fram í máli forsetans í gærkvöldi en alls hafa rúmlega 67 þúsund látist af völdum veirunnar vestanhafs.
Forsetinn sagðist bjartsýnn á þróun bóluefnis og býst við slíku í lok árs. Flestir sérfræðingar telja hins vegar að ekki sé von á bóluefni fyrr en á næsta ári.
„Ég held að það sé von á bóluefni í lok ársins,“ sagði forsetinn í viðtali við Fox News.
Forsetinn hafnaði því að bandarísk stjórnvöld hefðu ekki brugðist nógu hratt við útbreiðslu veirunnar og sagði að þau hefðu gert það rétta í stöðunni.
Trump sagði að ekki væri hægt að segja það sama um Kínverja. „Ég held að þeir hafi gert hræðileg mistök og þeir vilja ekki viðurkenna þau. Við vildum komast til þeirra en þeir vildu ekki fá okkur.“